Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:36:52 (2874)

2000-12-07 10:36:52# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. og tek undir það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra. Það er rétt hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að það er full ástæða fyrir Alþingi að vera á varðbergi gagnvart aðilum innan þings og utan, innan heilbrigðisþjónustunnar og utan hennar, vegna þess að sú hætta er fyrir hendi að ráðin verði tekin úr okkar höndum.

Aðilar á fjárfestingarmarkaði gína yfir velferðarþjónustunni. Á morgunverðarfundi Verslunarráðs í sumar gátu menn ekki leynt ákafa sínum og græðgi til að komast yfir þessa dýrmætu auðlind sem þeir telja velferðarþjónustuna. Þeir eru hvattir áfram innan þings og innan ríkisstjórnarinnar af aðilum sem vilja einkavæða velferðarþjónustuna og gera sér heilsu okkar að féþúfu. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hæstv. heilbrrh. í þessu efni. Það má hún vita að svo lengi sem hún stendur vaktina á þeim forsendum sem hún gerði grein fyrir þá á hún stuðning okkar.