Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:53:05 (2882)

2000-12-07 10:53:05# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru sjálfstætt starfandi læknar og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar í landinu og það á svo að vera áfram. Hér erum við að ræða um einkarekið sjúkrahús og um það fjallar umræðan. Ég hef sagt skýrt hvert álit mitt er á því og hef fyrir því rök.

Ég talaði við forstjóra Ríkisspítalanna í morgun og bað hann að fara yfir það með mér hvaða sjúkrahús væru einkarekin í Danmörku. Það eru nánast engin einkarekin sjúkrahús í Danmörku. Það hafa verið gerð tilraunir með það á stóru sjúkrahúsi rétt hjá Árósum, mjög myndarlegt sjúkrahús en ekki var hægt að reka það og því var lokað fyrir fjórum árum.

Það er þannig og það kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni áðan að læknar töluðu ekki einum rómi. Það er bara eins og annars staðar í þjóðfélaginu. En hann fór að tala um krossbandaaðgerðir og mér heyrðist hann vera svolítið hneykslaður á því að sjúkrahúsin tóku þessar aðgerðir af læknunum. Nú skal ég segja nákvæmlega hvernig þetta var. Það var þannig að sjálfstætt starfandi læknar úti í bæ gerðu svo miklar kröfur fjárhagslega fyrir að gera þessar aðgerðir að Tryggingastofnun treysti sér ekki til að greiða þær. Það er nákvæmlega það sem varð til þess að sjúkrahúsin tóku þetta að sér fyrir ráðuneytið vegna þess að sjúklingarnir og þeim var meira að segja boðið að borga allt upp í --- ja, ég ætla ekki að nefna þær upphæðir hér. Ég held að það kæmi mönnum mjög á óvart. En það er ýmislegt í þessu máli sem er ástæða til að ræða því að þetta eru alls ekki einföld mál. Þetta eru viðkvæm mál og þetta eru mikilvæg mál og mikilvægt er að samstaða sé um þessi mál. Ég tel að meiri samstaða sé um þessi mál en komið hefur fram í umræðunni vegna þess að það er margt sem við viljum hafa eins og er í dag þannig að sjúklingar fái þá allra bestu þjónustu sem hægt er að veita.