Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:58:31 (2978)

2000-12-07 18:58:31# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að átta mínútur yrðu hverjum og einum til ráðstöfunar í þessari umræðu í dag. Ég hafði hugsað mér að ræða þessa heilbrigðisáætlun nokkuð ítarlega, m.a. í tilefni af umræðu undanfarið um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Ég verð hins vegar að hlíta þeim reglum sem hér eru settar.

Ég fagna því að þessi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er komin fram. Það hefur verið unnið að henni um nokkurra ára skeið og margir hafa komið að þessari vinnu, m.a. fulltrúar stjórnmálaflokka. Ég nefni þar sérstaklega til sögunnar tvo fyrrv. heilbrrh., hv. þm. Sighvat Björgvinsson og Svavar Gestsson sem nú er ræðismaður. Einnig sat í nefndinni fyrrv. aðstoðarmaður heilbrrh., Inga Jóna Þórðardóttir. Í nefndinni sátu einnig fagaðilar og embættismenn. Þannig vildi til að ég tók þátt í þessari vinnu í þau fjögur ár sem unnið var að heilbrigðisáætluninni og var tilnefnd sem fulltrúi hjúkrunarfræðinga.

Í störfum mínum sem formaður félags hjúkrunarfræðinga um 10 ára skeið fékk ég tækifæri til að fylgjast vel með þróun heilbrigðismála hér á landi og taka þátt í þróun þeirra. Á þeim ferli mínum vann ég m.a. með fjórum heilbrrh., þar á meðal hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni.

[19:00]

Eitt helsta gagnrýnisatriði sem beindist að heilbrigðisyfirvöldum á fyrri hluta starfstíma míns sem formanns Félags hjúkrunarfræðinga var vöntun á stefnumótun í heilbrigðisþjónustu. Einnig var gagnrýnt á þeim tíma að heilbrigðisráðherrar áttu stundum erfitt með að fá heilbrigðisstarfsmenn til samvinnu við sig um stefnumótandi aðgerðir og sumir þeirra stóðu jafnvel í stöðugum útistöðum við heilbrigðisstéttir, þó ég viðurkenni reyndar að heilbrigðisstéttir eru kannski ekki auðveldasta fólkið til að starfa saman með.

Með góðum vilja má e.t.v. rekja erfiðleika við að hefja vinnu við stefnumótun til þess að heilbrigðisráðherrar sátu oft stutt í stóli sínum og höfðu þá kannski ekki mikla möguleika á að setja af stað stefnumótandi vinnu eða fylgja eftir áherslum sínum. Þess vegna hef ég með ákveðinni ánægju fylgst með störfum heilbrrh. síðustu fimm ár þar sem tekið hefur verið sérstaklega á mörgum stefnumótandi atriðum í heilbrigðisþjónustunni. Framan af var hæstv. heilbrrh. reyndar gagnrýnd fyrir að setja hvert málið á fætur öðru í nefnd. Þessar nefndir hafa nú lokið störfum og skilað árangri þannig að nú liggja fyrir töluvert margar skýrslur og ákvarðanir sem teknar hafa verið í kjölfarið þar sem tekið er á ýmsum málaflokkum í heilbrigðisþjónustunni. Þessi vinna sem hefur farið fram á undanförnum árum var löngu tímabær og hún er þegar farin að skila sér til heilbrigðisþjónustunnar. Vil ég nefna þar nokkur atriði, t.d. stefnumótun í málefnum geðsjúkra og málefnum langveikra, forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu sem m.a. birtist sem hluti af því plaggi sem við erum með fyrir framan okkur um heilbrigðisáætlun, stefnumótun í upplýsingatækni heilbrigðisþjónustu og í málefnum heilsugæslunnar, svo að fátt eitt sé nefnt.

Einnig hafa verið teknar ákveðnar ákvarðanir á undanförnum árum sem hafa lofað góðu. Sérstaklega vil ég nefna sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem ég hafði reyndar sjálf ákveðnar efasemdir um á sínum tíma að væru réttar ákvarðanir. En m.a. eftir heimsókn hv. heilbrn. á Austfirði fyrr í haust varð mér sérstaklega ljóst hve árangurinn hefur verið góður, þ.e. þarna hafa verið teknar ákvarðanir þar sem haft hefur verið að leiðarljósi að skilgreina þörf íbúanna fyrir heilbrigðisþjónustu og setja henni gæðamarkmið og haft hefur verið að leiðarljósi að samhæfa heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa svæðisins og þó að það sé stutt á veg komið, sjáum við nú þegar ákveðinn árangur í því. Þetta hefur leitt til aukins öryggis íbúanna og þeim er í rauninni ljóst hvaða heilbrigðisþjónustu þeir geti leitað á svæðinu og hvaða heilbrigðisþjónustu þeir þurfa að sækja utan svæðisins, en það er mjög mikilvægt fyrir íbúa landsins að átta sig á því hvað þeim stendur til boða.

Sú heilbrigðisáætlun sem hér er fyrir framan okkur er, eins og ég sagði áðan, afrakstur mikillar vinnu. Heilbrigðisáætlun var síðast lögð fram og samþykkt á árinu 1991. Það sem einkenndi þá heilbrigðisáætlun var að þar voru sett fram almenn markmið um skipulag þjónustunnar. Það var sérstaklega gagnrýnt að mælanleg markmið skorti og það var erfitt að festa hönd á því hvernig átti að hrinda þeirri áætlun í framkvæmd. Sú heilbrigðisáætlun sem við höfum nú fyrir framan okkur og er til umfjöllunar var unnin í samvinnu margra aðila. Meðal annars var hún send til ýmissa til umsagnar, bæði félaga heilbrigðisstarfsmanna, frjálsra félagasamtaka sem vinna á sviði heilbrigðismála, til heilbrigðisstofnana og til annarra stofnana innan heilbrigðiskerfisins auk ýmissa embættismanna. Þar að auki var hún til umfjöllunar á heilbrigðisþingi sem haldið var í mars á síðasta ári og í lokafrágangi að heilbrigðisáætluninni var tekið tillit til þessara umsagna og athugasemda. Eins og mál standa er því um að ræða nokkuð gott heildstætt plagg þar sem margir hafa lagt hönd á plóginn.

Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrrh. byggir áætlunin að grunni til á Evrópuáætlun um heilbrigði fyrir alla til ársins 2020 og 21 markmiði hennar, en þessi Evrópuáætlun var samþykkt árið 1998. Það sem er sérstakt við þessa heilbrigðisáætlun er að hún byggir á greiningu á þörf fyrir heilbrigðisþjónustuna. Hún greinir í rauninni heilbrigðis\-ástand þjóðarinnar og þar er skoðað hvar skórinn kreppir og hvernig við eigum að forgangsraða því. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að sérstaklega ætti að huga að þeim sjö heilbrigðisvandamálum sem hæstv. heilbrrh. nefndi áðan. Þetta eru þeir þættir sem sérstaklega þarf að taka á til þess að bæta heilsufar þjóðarinnar og þeir voru ákveðnir sem forgangsverkefni. Í stað almennra markmiða voru sett mælanleg markmið um hvert og eitt þeirra verkefna sem unnið er að og gerðar eru tillögur um leiðir. Það er hugsað þannig að í framhaldi af markmiðunum yrðu myndaðir hópar eða unnin ákveðin vinna til þess að gera nákvæmar tillögur um hvernig eigi að standa að því að ná þessum markmiðum. Þetta er sambærilegt við það sem Bretar hafa gert. Þeir settu sambærileg markmið og síðan unnin mikil vinna við framkvæmdaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað tala aðeins lengur um þetta mál. En við fáum þá betra tækifæri við síðari umræðu málsins og ég geymi hugleiðingar mínar þangað til.

(Forseti (HBl): Hv. þm. getur flutt aðra ræðu við þessa umræðu. Hægt er að taka til máls tvisvar.)