Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:49:21 (3011)

2000-12-08 10:49:21# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Til þess að forðast misskilning skal það fram tekið að sá sem hér stendur er einkavæðingarsinni og er fylgjandi einkavæðingu Landssímans. Jafnvíst er hitt að hann er andvígur einkavinavæðingunni sem þessi hæstv. ríkisstjórn og fyrirrennari hennar er frægust fyrir. Það má mikið vera ef hér verður ekki á ferðinni í sambandi við bankasameiningu og sölu Landssímans hin gamla helmingaskiptaregla. Við skulum sjá hvað setur.

En þær upplýsingar sem komu fram í máli fulltrúa minni hluta í fjárln. eru með ólíkindum. Hér er verið að taka inn í tekjuhlið fjárlaga stóran lið vegna sölu Landssímans en það á ekki að leggja fyrir hv. fjárln. hvað að baki býr. Slíkt er með öllu óforsvaranlegt. Minni hlutinn gerir tilraun til þess æ ofan í æ að nálgast einhverjar upplýsingar sem liggja til grundvallar þessum tekjulið en honum er meinað um það og þær skýringar gefnar af formanni fjárln., hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að fyrir Alþingi muni koma einhvern tíma frv. til laga um sölu Landssímans. Þennan lið á fjárlögum er útilokað að afgreiða nema hið háa Alþingi fái nákvæma lýsingu á því hvað að baki býr, hvers eðlis þessi stórsala er því hér er ekkert smámál á ferðinni.

Allt annað mál er það sem menn þurfa líka að glöggva sig á vegna harðs ágreinings um sölu netsins sjálfs. Það þarf að taka til rækilegrar umræðu. Þess vegna er þessi málatilbúnaður með ólíkindum og ósæmilegur fyrir hið háa Alþingi.