Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:23:55 (3189)

2000-12-12 14:23:55# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil svara spurningum hv. þm. sem eru því miður þannig fram settar að ég sé ekki að neitt nýtt komi fram í svörum mínum.

Í fyrsta lagi er spurt um í hverju meintur klaufaskapur Búnaðarbankans sé fólginn. Því er til að svara að það virðist hafa verið tilviljunum háð hverjum bankinn tefldi fram í hvert sinn þó viðræður séu formlega undir forustu formanns og varaformanns bankaráðs. Í jafnviðkvæmum málum og sameiningarmálum verða vinnubrögð að vera öguð og skilvirk. Á þetta benti ég formanni bankaráðs og beindi þeim tilmælum til hans að einn maður stýrði viðræðum á lokasprettinum. Meira hef ég ekki um þessar viðræður að segja enda tek ég ekki þátt í þeim. Mér þykir miður að eðlileg tilmæli mín skyldu verða tilefni fjölmiðlaumfjöllunar.

Í öðru lagi vill hv. þm. fá meira að vita um hlutafélagalögin. Það skal upplýst að sú meginregla gildir í hlutafélagarétti að stjórnarmenn skuli hafa í huga hagsmuni félagsins og hluthafa í störfum sínum. Á föstudag var svo komið að ég sannfærðist um að sameiningarviðræðum af hálfu Búnaðarbankans væri ekki stýrt þannig að best væri fyrir félagið og hluthafa. Vegna tímapressunnar var brýnt að unnið væri einarðlega að málum. Í ljósi ákvæða samþykkta Búnaðarbanka um að einungis skuli boða til aukafundar innan 14 daga frá því að krafa um aukafund berst frá hluthafa til bankaráðs taldi ég það ekki fýsilegan kost. Því ákvað ég að tjá formanni bankaráðs hvað ég teldi vera bestu ákvörðunina í stöðunni til það tryggja hagsmuni félagsins og hluthafa í þessu mikilvæga máli. Ég var ekki að gefa honum fyrirmæli enda hef ég ekki rétt til þess utan hluthafafunda. Stjórnarmönnum ber hins vegar að hafa í huga hagsmuni hluthafa og félagsins í störfum sínum fyrir félagið og því taldi ég rétt og skylt að upplýsa formanninn um að ég teldi hann ekki vera að vinna eftir þeim reglum. Ég tjáði honum hvernig ég teldi að hagsmunir félagsins og hluthafa væri best tryggðir í þessu gífurlega mikilvæga máli.

Í þriðja lagi er spurt hvort starfsfólk fái tryggingu fyrir því að ekki komi til uppsagna þó af sameiningu verði, t.d. fyrstu þrjú árin. Þessu er fljótsvarað. Ekkert fyrirtæki getur veitt slíka tryggingu, því miður. Bankarnir, sameinaðir eða hver í sínu lagi, munu ekki geta veitt tryggingu fyrir störfum.

Í fjórða lagi er spurt hvort á dagskrá sé að leggja frv. fram fyrir jól ef sameining fær grænt ljós hjá Samkeppnisstofnun. Já, að því er stefnt. Það eru geysilegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir ríkið og viðskiptalegir hagsmunir fyrir bankana. Ekki er boðlegt að starfsmenn bíði lengur í óvissu. Bankarnir eru í mikilli samkeppni um hæft fólk og því meiri óvissa sem ríkir, því líklegra er að bankarnir eigi í erfiðleikum með að halda í hæft fólk eða ráða nýtt til starfa. Þetta verða hv. þm. að skilja þó að ég viðurkenni fúslega að óheppilegt er að málið, ef til þess kemur, skuli koma inn í þingið svo seint.

Þingmálinu er ekki hægt að fresta. Til þess eru hagsmunirnir of miklir. Ég mun fara fram á, verði niðurstaða samkeppnisráðs jákvæð, að fá heimild Alþingis til að greiða atkvæði á hluthafafundum bankanna með samrunanum. Hluthafafundir verða haldnir í lok janúar en samruninn miðast við áramót. Hér er því staðið að málum eins og algengast er við sameiningu fyrirtækja.