Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:43:42 (3197)

2000-12-12 14:43:42# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram með hannyrðaspuna hæstv. forsrh. en sú mikla óvissa sem komin er upp varðandi sameiningu bankanna stafar að stórum hluta af því að stjórnarþingmenn og ráðherrar bíta nú sem fastast á jaxlinn og ætla sér bara í gegn með málið á hörkunni ef ekki vill betur. Það væri svo sem ekkert nýtt í störfum Alþingis á jólaföstunni, það þekkjum við, en það er engum til framdráttar. Það sem unnið er á slíkum nótum á sannarlega á hættu að vera gersneytt hinum mannlega þætti. Það hefur margoft komið fram síðustu daga að því hvassari sem brúnin verður á hæstv. viðskrh. því minni verður tiltrú manna á getu hennar til að ljúka þessu máli með sóma.

Herra forseti. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Ég spyr: Hvers vegna hægir hæstv. viðskrh. ekki ferðina, andar djúpt og opnar fyrir aðrar hugmyndir en þær sem hún hefur læst sig í? Gæti það ekki leitt til niðurstöðu sem líklegra væri að sátt næðist um? Hverjar eru þær niðurstöður sem ríkisstjórnin væntir í málinu? Hver er megintilgangur sameiningar bankanna í huga hæstv. viðskrh.? Hagræðing er það orð sem oftast heyrist. Hve trúverðugt er það? Hvers konar hagræðing kemur út úr því ferli að slá saman stofnunum með átökum sem skilja fjölda óbreyttra starfsmanna eftir án atvinnu og stjórnendur sem í sameiningarferlinu hafa greinilega ekki setið í sátt og samlyndi við að skapa manneskjuvæna bankastofnun. Meðal annarra orða, hvernig væri að ræða grundvallaratriði bankastarfsemi af þessu tilefni? Ekki eru bankarnir til fyrir sjálfa sig eða hvað? Er þeim ekki ætlað að vera þjónustustofnanir sem þjóna almenningi eða eru þeir kannski bara peningastofnanir sem almenningur er neyddur til að skipta við, stofnanaskrímsli sem vilja sölsa undir sig fé alþýðunnar og í krafti valds síns og sannfæringamáttar auglýsinganna fara með eigur almennings eins og þeim sjálfum sýnist?

Hefur hæstv. viðskrh. spurt sig þessara spurninga í þeirri hringiðu sem hún er nú stödd í? Ef ekki, væri þá ekki tilvalið að hún gerði það?

Herra forseti. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða sem snertir ekki síst atvinnu fjölda fólks af landinu öllu. Ég skora á viðskrh. að hægja á ferðinni og ganga heldur þannig til verks að tryggt sé að sameining bankanna leiði ekki af sér sársaukafullar fjöldauppsagnir. Eitt er að beita stjórnarandstöðuna hörðu á þinginu, við getum þolað það. Það er annað að berja í gegn lagafrv. sem færir hundruðum landsmanna yfirvofandi atvinnuleysi í jólagjöf.