Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:31:00 (3394)

2000-12-14 14:31:00# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. 2. minni hluta ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Frsm. 2. minni hluta landbn. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta landbn. Ég hefði getað skrifað undir álit meiri hluta landbn. með fyrirvara og gert grein fyrir þeim málflutningi sem ég geri nú með nefndarálitinu en þar sem ég tel að þær breytingar sem hér er gerð tillaga um muni ekki eingöngu lögfesta núverandi rekstrarform heldur leiðir til breytinga í náinni framtíð, þá legg ég fram sérstakt nefndarálit, svohljóðandi:

,,Með frv. eru ekki gerðar breytingar á núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra. Hins vegar er lagt til að ákvæði laga nr. 54/1990 verði aðlöguð þeirri framkvæmd á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem þróast hefur og að landbrh. geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis.

Það verklag sem þróast hefur við innflutning dýra síðan lög nr. 54/1990, um innflutning dýra, voru sett hefur í meginatriðum gengið áfallalaust og er því ekki ástæða til að mæla gegn því að því tilskildu að í engu sé slakað á í kröfum um sóttvarnir.

Því er mikilvægt að settar verði í reglugerðir skýrari reglur um útbúnað sóttvarna- og einangrunarstöðva og eins um rekstur þeirra, eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Þetta er mikilvægt þar sem margir aðilar reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar í dag og þeim mun að öllum líkindum fjölga með lagabreytingunni þrátt fyrir yfirlýsingar landbrh. um hið gagnstæða varðandi gæludýr. Það er ljóst að töluverður áhugi er á því að hafa sóttvarna- og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr nær höfuðborgarsvæðinu. Þessi áhugi er viðskiptalegs eðlis en einnig mikið hagsmunamál eigenda gæludýra og með lagabreytingunni verður erfitt að hafa einungis eina sóttvarna- og einangrunarstöð fyrir gæludýr í landinu.

Eftirlit með sóttvarna- og einangrunarstöðvunum verður að vera virkt og á ábyrgð hins opinbera. Mikilvægt er að fjölga stöðugildum sóttvarnadýralækna í samræmi við fjölda einangrunarstöðva og eins aukinna verkefna.

Mjög alvarlegar athugasemdir komu fram í umsögn varðandi einangrun gæludýra við flutning þeirra eftir komu til landsins að sóttvarna- og einangrunarstöðinni í Hrísey. Því er treyst að brugðist verði við þessum athugasemdum.

Embætti yfirdýralæknis leggur til að sett verði í lögin hæfileg refsiákvæði vegna brota á lögunum og reglum sem settar verða samkvæmt þeim.

Ákvæði um sóttvarna- og einangrunarstöðvar eru sett til að forðast sýkingu í íslenska dýrastofninum, ekki eingöngu í þeim dýrategundum sem fluttar eru inn heldur einnig í öðrum sem gætu tekið smit frá sýktum dýrum.``

Herra forseti. Lög og reglugerðir varðandi innflutning á dýrum og um einangrunar- og sóttvarnastöðvar eiga í sjálfu sér að vera hindrandi. Þær eiga að vera takmarkandi fyrir innflutning því að eins og hæstv. landbrh. nefndi áðan er þetta til þess að forðast sýkingu í íslenska bústofninum og í öllum íslenskum dýrum og þetta eiga því eðlis síns vegna að vera takmarkandi lög og reglugerðir.

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur lýst því yfir að hann muni ekki veita fleiri aðilum rekstrarleyfi fyrir sóttvarna- og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Í andsvörum hefur hann sagt að þessar breytingar muni opna fyrir breytingar á rekstri. Það þarf ekki að þýða að hann sé tilbúinn til þess að fjölga einangrunarstöðvum heldur að hann sé tilbúinn til þess að breyta rekstri en alla vega opnar þetta fleiri möguleika heldur en eru í dag.

Ég tek undir þau sjónarmið að fjölga ekki einangrunarstöðvum fyrir gæludýr. Það er tæplega grundvöllur fyrir rekstri fleiri stöðva og því verður að horfast í augu við þá staðreynd að rekstrargrunni sé kippt undan núverandi einangrunarstöð í Hrísey verði leyfður rekstur annarrar stöðvar. Sú stöð er nýlega stækkuð til að sinna eftirspurn og mikið endurbætt og þessi stöð er viðbótin. Sú starfsemi er svo nýlega hafin að það hefur ekki enn reynt á það hvort hún sinnir öllum eftirspurnum eða getur á skömmum tíma eytt biðlista en vonir standa til að sú stækkun sem nýlega var tekin í gagnið geti uppfyllt þarfir fyrir innflutning á gæludýrum.

Það má deila um það hvort staðsetning einangrunarstöðvar fyrir gæludýr sé rétt í Hrísey út frá öryggis- og sóttvörnum. Bæði vegna sóttvarna frá flugvelli yfir á einangrunarstöðina og eins vegna sóttvarna- og krosssmits dýra úti í Hrísey. Þetta er nokkuð sem verður að meta út frá sóttvarnasjónarmiði en ekki af tilfinningalegum toga. Það hafa verið gerðar töluverðar lagfæringar og endurbætur varðandi umgengni í Hrísey og sóttvarnaeftirlit og reglur hertar og ég hvet til þess að yfirdýralækni verði gert það mögulegt að fá þær breytingar fram sem þarf til þess að allar kröfur um sóttvarnir séu uppfylltar eins og hægt er og að reglugerð komi hið snarasta til þess að öllum sé ljóst hvernig eigi að vinna. Umgangur utanaðkomandi aðila á að vera mjög takmarkaður inn á einangrunarstöðvar. Staðsetningin að því leyti skiptir ekki máli nema hvað hætt er við því að það væri meiri ásókn inn á gæludýrastöð eða gæludýrastöðvar ef slík stöð verður staðsett nær höfuðborgarsvæðinu en það er það sem eigendur gæludýranna eru að leita eftir, að geta haft meira samband við stöðvarnar og þá hugsanlega dýrin meðan á einangrun stendur en það er í sjálfu sér ekki æskilegt því að allur umgangur eykur smithættu og dreifingu smits.

Innflutningur dýra og erfðaefna er í eðli sínu þannig að nokkur viðspyrna, eins og ég sagði áðan, á að vera við innflutningi, bæði vegna sóttvarna og eins vegna kynblöndunar við innlenda dýrastofna. Fjöldi og rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva skiptir því máli því erfiðara verður að fylgjast með framkvæmd sóttvarnaákvæða á hverjum stað eftir því sem stöðvunum fjölgar.

Herra forseti. Það má ekki taka orð mín svo að ég sé að gagnrýna það fyrirkomulag sem hefur gilt og rekstur þeirra stöðva sem reknar eru í dag heldur lýsi ég eingöngu áhyggjum mínum af því að í framhaldi af þessum breytingum verði erfitt að framkvæma ítarlega sóttvarnir ef einangrunarstöðvunum muni fjölga eitthvað að ráði.

Herra forseti. Það virðist líka vera sem áhugi umsagnaraðila eins og Hundaræktarfélags Íslands og Dýraverndunarfélags Íslands lúti frekar að líðan dýranna og eigenda þeirra frekar en því sem snýr að sóttvörnum, þ.e. að frekar sé hugsað um líðan eigenda og skepna í staðinn fyrir að láta sóttvarnirnar ganga fyrir því að svo virðist sem menn hafi áhuga á því að slaka á kröfum, þ.e. að stytta einangrunartímann. Og ef ég fæ að vitna í umsögn Hundaræktarfélags Íslands þá segir þar á einum stað, með leyfi forseta:

,,Landbrh. getur falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna. Telur stjórn Hundaræktarfélags Íslands nauðsynlegt að skýrt komi fram að einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum sé heimilt að reka einangrunarstöðvar undir eftirliti yfirdýralæknis eins og í löndum þar sem einangrunar er enn krafist fyrir innflutt gæludýr.``

Mér finnst vera tvennt í þessu. Hér á að draga úr ábyrgð ráðherra og þetta sé eins og fyrirtækjum sé heimilt að setja upp einangrunarstöð rétt eins og hvert annað fyrirtæki og það er verið að vísa til þeirra landa, jafnvel meginlanda sem við getum ekki borið okkur saman við.

Í Evrópu og á meginlöndunum er kannski ekki sama ástæðan til þess að setja upp samsvarandi einangrunarstöðvar og við höfum því að þar flæðir allt meira og minna á milli landa. En fyrir okkur sem búum á eylandi og höfum haft í gegnum aldirnar þann möguleika á að halda okkar dýrastofnum hreinum, þ.e. við höfum haft þann möguleika en orðið fótaskortur og því miður ekki verið nógu gætin og fengið inn sjúkdóma með innfluttum dýrum, mjög alvarlega sjúkdóma sem við erum enn að berjast við, en við höfum þessa möguleika og því ber okkur að nota þetta einstaka tækifæri sem við höfum með því að hafa öflugar einangrunarstöðvar og sjá til þess að þau dýr sem koma hingað inn í landið fari í gegnum slíkar stöðvar.

Herra forseti. Í einu andsvari minntist hæstv. landbrh. á að það væru möguleikar á því að koma upp sóttkvíum erlendis í þessu sama skyni og mig langar til þess að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það gæti þá einnig átt um tilraun þá sem á að fara hér í gang með innflutning á fósturvísum úr norskum kúm, hvort þessi kynblöndun á íslensku kúnni gæti farið fram í Noregi.