Búnaðarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 18:01:06 (3456)

2002-01-22 18:01:06# 127. lþ. 57.5 fundur 350. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er lítið frv. og fjallar að hluta til um sjálfsagða hluti. Í athugasemdum við frv. er mjög vitnað til þekktra erlendra athugana sem hafa verið gerðar á slíkum málum, og samstarfssamninga. Gert er ráð fyrir að verksvið erfðanefndar verði aukið og það taki til allra erfðalinda í landbúnaði og umfram það sem áður hefur verið ákveðið, einnig til nytjajurta og trjáa. Ég get heils hugar tekið undir þetta, enda er þetta í samræmi við alþjóðlegar og norrænar skuldbindingar Íslendinga á þessu sviði.

Síðan kemur dálítil slaufa í endann. Talað er um hlutverk nefndarinnar. Í samræmi við hlutverk nefndarinnar er lagt til að nefndarmönnum verði fjölgað úr fimm í sjö. Lagt er til að annan af þessum tveimur mönnum sem bætast þarna við tilnefni Skógrækt ríkisins, sem er eðlilegt þar sem hluti af viðaukanum á við tré. Landbrh. skipar sjöunda manninn án tilnefningar. Síðan er getið um það að maður tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands falli út úr nefndinni og í staðinn skipi umhvrn. mann í nefndina.

Mér finnst þetta alveg furðulegar hundakúnstir og ég kann engar skýringar á því hvers vegna lagt er upp með þetta á þennan hátt, nema ef vera kynni að væntanlegt muni vera frv. frá hæstv. menntmrh. þar sem hann flytur stefnumörkun í vísindum inn í ráðuneytin, hvort þetta kunni eitthvað að hanga á þeirri spýtu. Ég veit ekki hver á frekar að fjalla um þetta mál og öll þessi mál en Náttúrufræðistofnun Íslands. Og ég ætla að vona að hún sé ekki komin á dauðalistann, þannig að taka þurfi menn hennar út úr lögbundnum nefndum ríkisins. Ég bið um skýringar frá hæstv. landbrh.

Mér þykir þetta mál hið undarlegasta og auðvitað eigum við eftir að ræða þetta nánar í nefndinni, en ef að stórum hluta er lagt upp með þetta frv., þær breytingar á 16. gr. laganna sem hér er verið að leggja til, til að koma í leiðinni fulltrúa Náttúrufræðistofnunar út úr nefndinni, þá veit ég bara ekki hvaðan á mig stendur veðrið.