Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:13:03 (3524)

2002-01-24 11:13:03# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að harma þessi viðbrögð hv. formanns samgn. Ég ítreka að hér er verið að fjalla um mikilvæg öryggismál fyrir flugþjónustuna í landinu og það er afar mikilvægt að þau mál séu unnin á viðhlítandi hátt og vel og vandlega, sem ég tel alls ekki hafa verið gert við framlagningu frv. nú til 2. umr. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að beita þeirri vinnuaðferð að ætla að afgreiða lög sem þessi sem svo mikill ágreiningur er um í nefndinni varðandi öryggi flugþjónustunnar í landinu.

Ég ítreka, herra forseti, að ég tel að þetta mál sé alls ekki undirbúið undir 2. umr. og þess heldur ætti það að fara aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að fá þar betri og vandaðri meðferð, ekki síst einmitt í ljósi atriða sem komið hafa fram síðan málið var til umræðu fyrir jól varðandi störf að heilsugæslu og eftirliti með heilsu flugstjóra, sem er eitt atriði til viðbótar sem kemur inn í þessi flugöryggismál. En þó það væri ekki þá er það samt skoðun mín og ég ítreka það að ég tel þetta frv. vera illa unnið og eigi að fara aftur til nefndarinnar til skoðunar áður en það kemur til lokaafgreiðslu.