Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:02:48 (3774)

2002-01-30 14:02:48# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hv. málshefjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, gerði mikið úr því að fyrirtækið sem við værum nú í viðræðu við vegna sölu Landssímans stæði í útistöðum vegna meintra verðskrárbrota í Danmörku. Sannleikurinn er sá og rétt er að rifja það upp að hér hafa verið sett ný lög um samkeppni og fjarskipti. Ég spyr því hv. þm. hvort hann sé virkilega þannig hugsandi að við höfum gengið of langt í því að tryggja okkur nákvæmt eftirlit með því fyrirtæki sem hér er og ætlar að hasla sér völl á sviði fjarskipta sem hér er rætt um.

Einnig er athyglisvert að heyra hv. þm. tala um að nær hefði verið að leggja til fjármagn til að flýta lagningu breiðbands á Norðausturlandi, á sama tíma og þessir aðilar tala um að eðlilegt hefði verið að tvískipta sölu Landssímans þannig að dreifikerfið væri sér og Landssíminn með öðrum hætti.

Við sjálfstæðismenn höfum talið, og stjórnarþingmenn, að eðlilegt sé að þetta sé í einum og sama pakka og ég held að það hafi verið gæfa að það spor var stigið. Allt tal um að hér sé óvarlega farið er rangt mál og því vísað til föðurhúsanna í ljósi þeirrar lagasetningar sem við höfum verið að setja til þess að tryggja betra eftirlit með því sem væntanlega mun gerast og mun verða til góðs, þ.e. sala Landssímans.