Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:57:15 (3827)

2002-01-31 13:57:15# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Fyrst tvær athugasemdir um málflutning hv. þm. Halldórs Blöndals. Í fyrsta lagi: Hæstv. samgrh. var beðinn af formanni Samfylkingarinnar að vera hér við umræðuna til að svara ákveðnum spurningum þannig að hann hafði allan fyrirvara sem hann þurfti til þess máls en hann hefur kosið að svara ekki ákveðnum spurningum sem varða m.a. reglugerð í ráðuneyti hans. Ástæðan er sú að hann hefur ekki hugmynd um hvort reglugerðin hafi verið sett. Þegur við grennsluðumst eftir því hjá ráðuneytinu áðan þá vissi enginn í ráðuneytinu það. Það er nú ástæðan.

Hv. þm. Halldór Blöndal fer líka með fleipur þegar hann heldur því fram að Samfylkingin hafi ekki stutt aðgerðir til að hjálpa Flugleiðum. Við höfum tvisvar stutt bráðabirgðalög og síðast fyrir þremur stundarfjórðungum var þessi þingmaður að samþykkja að framlengja í efh.- og viðskn. þann frest sem er á tryggingum til handa Flugleiðum.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. talar um að líta beri á staðreyndir málsins og ég ber ekki brigður á þær tölur sem hann les hér úr skýrslu. En það liggur fyrir að í fréttatilkynningu segir að Go-fly fljúgi ekki til Íslands vegna mikils kostnaðar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kostnaðurinn á Keflavíkurflugvelli er að jafnaði tvisvar sinnum hærri en á flestöllum öðrum flugvöllum sem Go flýgur til í Evrópu. ... Afgreiðslukostnaður Flugleiða, sem hefur annast Go, er sá dýrasti sem félagið greiðir í Evrópu eða fjórum sinnum hærri en í Munchen og 2,5 sinnum hærri en í Kaupmannahöfn.``

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. utanrrh. þegar hann heldur því fram að öll félögin þurfi að greiða fimm bandaríkjadali á hvern farþega. Dótturfélag Flugleiða þarf að gera það. Suðurflug, sem gerði samning í september, þarf að borga sex. Vallarvinir hafa hafnað því að gera samning við Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna þess að flugstöðin krefst þess að þeir borgi dollara meira en dótturfélag Flugleiða. Þannig að hæstv. utanrrh. hefur fengið rangar upplýsingar.

En ég fagna því að almenn samstaða sé um að leita leiða til þess að draga úr þessum kostnaði og fá þetta flugfélag aftur til landsins.