Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:12:39 (3968)

2002-02-04 19:12:39# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar ég talaði um vankunnáttu mína á áfengismálum á landsbyggðinni var það aðallega í þeim byggðum sem ég hef ekki komið til, m.a. á norðausturhorninu og þar veit ég ekki hvort áfengisútsala er eða ekki. Ég held að e.t.v. væri besta ráðið sem hv. þm. getur lagt til til að auka hlut landsbyggðarmanna í áfengisneyslu og auka verslun á landsbyggðinni að taka upp sérstaka farandsölu einkaaðila með áfengi. Það reyndist vel í gamla daga. T.d. seldu bóksalar vel af bókum og má hugsa sér að selja hvort tveggja í einu. Tryggingamenn eru víða á ferðinni úti á landi og það mætti vel hugsa sér að þeir verði þar líka.

Auðvitað getur ÁTVR komið betur til móts við þarfir landsbyggðarinnar í þessu efni. Um það er ekki að deila. Það sem ég vakti hins vegar athygli á er að þar er yfirleitt ekki við starfsmenn ÁTVR að sakast eða þann ramma sem ÁTVR er búinn heldur yfirleitt tregðu í fjmrn. sem hefur þá áhrif á forustumenn ÁTVR. Þetta á hv. þm. með alla sína þingreynslu og alla sína kunnáttu í áfengismálum og öðrum málum að þekkja ágætlega.