Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:06:38 (3992)

2002-02-04 22:06:38# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:06]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Þetta er ályktun um það að ríkisstjórnin skipi nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni síðastliðin tíu ár og bera saman við þróunina á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili.

Einnig er gert ráð fyrir í þessari till. til þál. að þessi nefnd kanni hvaða þættir hafi helst áhrif á vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðuna. Sérstaklega á nefndin að athuga áhrif þungaskatts á vöruverðið og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafi haft á vöruverð á landsbyggðinni og einnig áhrif þungaskatts á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja.

Þá er gert ráð fyrir því að nefndin móti tillögur sem hafi að markmiði að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð og að hún verði búin að skila skýrslu til Alþingis fyrir 1. október árið 2002.

Herra forseti. Á þessari stundu eru vöruflutningabílar á ferðinni um landið þvert og endilangt. Þeir eru að flytja vöru út á land og þeir eru líka að flytja vöru af landsbyggðinni hingað suður. Hér er bent á flutningskostnaðinn, hvað hann er mikill, hvað það kostar mikið að flytja vörur út á land og hvað það kostar mikið að flytja vörur utan af landi suður, t.d. fisk í miklum mæli, jafnvel beint til útflutnings eða vinnslu hér.

Verðkannanir sýna að vöruverð á landsbyggðinni er miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu og erum við flutningsmenn þessarar tillögu sannfærðir um að flutningskostnaðurinn sé einn stór liðurinn í þessu. En við viljum að þetta verði skoðað og rannsakað betur til að menn sjái auðveldlega og á augljósan hátt hvað þetta er orðinn stór liður í kostnaði, eins og hv. 1. flm. þessarar þáltill., Kristján L. Möller, hefur margoft bent á.

Vert er að líta á töflur sem segja okkur hvað kostar að flytja vöru út á land. Ég er hér með verðskrá Flutningaþjónustunnar Flytjanda þar sem fram kemur t.d., með leyfi forseta, að það kosti 2.164 kr. að flytja 50--59 kg sendingu. Þetta er mikill kostnaður. Ef vara er þyngri en 300 kg kostar það 20 kr. og 31 eyri á hvert kíló. Allir hljóta að sjá í hendi sér að þetta er mjög mikill kostnaður sem verður auðvitað ekki greiddur nema af neytandanum.

Herra forseti. Stór og mikill liður í þessum kostnaði er þungaskatturinn. Ég held að það sé alveg rétt að gert sé ráð fyrir því í fjárlögum að tekjur ríkisins af þungaskatti verði um 5 milljarðar. Hverjir greiða þennan skatt? Að langmestu leyti er þetta landsbyggðarskattur. Hvernig er hægt að tala um að efla þurfi byggðir landsins og styrkja þær með ýmsum aðgerðum þegar þær eru skattlagðar á þennan hátt?

Herra forseti. Í umræðum hér áðan um áfengismál og annað barst Grundarfjörður í tal. Í Grundarfirði er myndarlegt flutningafyrirtæki sem flytur fisk á milli staða á landinu og vörur til Grundarfjarðar og á aðra staði. Þetta fyrirtæki greiðir á þessu ári, herra forseti, að lágmarki 40 millj. kr. í þungaskatt.

Rætt hefur verið um að brúa þurfi Kolgrafarfjörð og að sú aðgerð muni kosta 700--800 milljónir. Reikna má með því að Vegagerðin gæti hreinlega tekið lán fyrir þessari framkvæmd og þungaskattur þessa eina fyrirtækis gæti síðan greitt niður brúna og þessa miklu vegaframkvæmd --- hvað eigum við að segja? --- á 20 árum. Þetta er nöturleg staðreynd sem segir hve landsbyggðin er undir miklu álagi vegna þessara tolla.

Það er eitt brýnasta réttlætismál í byggðamálum okkar að jafna flutningskostnað. Þess finnast dæmi í löndum sem hafa raunhæfa byggðastefnu og þar sem ríkisstjórnir sýna virkilega raunverulegan áhuga á því að þær vilji að land þeirra sé í byggð en ekki að stöðugur straumur sé til höfuðborgarsvæðanna eða stóru þéttbýlisstaðanna, að þar eru ívilnandi reglur og lög fyrir þá sem búa í hinum dreifðu byggðum.

Samfylkingin hefur líka lagt fram þáltill. um stofnstyrki sem á einnmitt að verða til þess að styrkja og efla nýsköpun á landsbyggðinni, lítil og meðalstór fyrirtæki.

Herra forseti. Ég hvet til þess og vænti að þessi góða þáltill. fái jákvæða umfjöllun og góða í samgn., að hún haldi áfram og fái fína afgreiðslu í þinginu.