Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:54:13 (4000)

2002-02-04 22:54:13# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvernig ber að skilja mál hv. þm. Ég hef að vísu orðið þess áskynja að hv. þm. hefur sett sig á mælendaskrá þannig að hún getur e.t.v. skýrt stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum. Hins vegar get ég ekki skilið mál hv. þm. öðruvísi en svo að hún leggist gegn því að þungaskattinum verði breytt þannig að íbúar landsbyggðarinnar beri hann ekki með jafnmiklum ofurþunga og núna. Er það rétt skilið hjá mér, herra forseti?

Hitt skil ég mætavel að hv. þm. Arnbjörn Sveinsdóttir gleðjist yfir þeim þrýstingi sem Reykjavíkurlistinn hefur sett á stjórnvöld og þar með náð talsverðu fjármagni til að bæta úr samgöngukerfinu sem ríkisstjórnin á að kosta, þess hluta þess sem ríkisstjórnin á að kosta hér í bænum. Auðvitað er það þannig að undir stjórn Reykjavíkurlistans hefur borgin blómgast (Gripið fram í.) og dafnað.

Herra forseti. Gerir hv. þm. sér grein fyrir því hvað það kostar flutningabílstjóra með tengivagn að fara með bifreið sína til Seyðisfjarðar? Hvað þarf sá að greiða háan þungaskatt? Ég er viss um að hv. þm. getur svarað því og gerir það hér á eftir. En ég skal upplýsa hana um það. Það eru 70.000 kr. Hv. þm. virðist ekki vilja létta þeim kostnaði af íbúum Seyðisfjarðar. Það eru 32 kr. á kíló miðað við 300 kílóa farm.

Herra forseti. Þetta eru auðvitað hlutir sem hljóta að skipta máli fyrir íbúa dreifbýlisins og hljóta að skipta máli fyrir íbúa Seyðisfjarðar. En ætla þingmenn Sjálfstfl. virkilega að þegja í þessari umræðu og láta það sannast á sig að Sjálfstfl. styðji það ekki að draga úr þungaskatti sem leggst með þessum ofurþunga á íbúa landsbyggðarinnar? Ætlar hinn málglaði hæstv. forseti t.d. að þegja undir þessu eftir að hafa dóserað hér í allan dag um hin ólíkustu mál?