Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:56:29 (4001)

2002-02-04 22:56:29# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:56]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið sérstök umræða og sérstaklega það hvernig menn tala um þá stefnu í byggðamálum sem hér hefur verið fylgt. Kannski væri rétt að fara aðeins yfir það hvernig sú stefna var tekin.

Menn lögðu mjög mikið í að undirbúa þá tillögu áður en hún var flutt á Alþingi. Margir voru kallaðir til þess verks, m.a. gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands viðamikla könnun um byggðavandann í heild og þá sérstaklega á afstöðu þeirra sem flutt höfðu af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og afstöðu þeirra sem enn bjuggu á þeim tíma á landsbyggðinni. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, með Stefán Ólafsson í broddi fylkingar, vann mjög viðamikla rannsókn á því hvernig því væri öllu háttað.

Upp úr þessum rannsóknum var unnin tillaga um það hvernig mætti bregðast við vanda fólksins sem býr á landsbyggðinni og snúa við þessari óheillavænlegu byggðaþróun sem við höfum svo lengi þurft að horfa upp á. Þegar niðurstaða þessara rannsókna lá fyrir var gengið frá tillögunni sem nú er í gildi. Sú tillaga tekur á mjög mörgum þáttum. Hún tekur á atvinnumálum, mennta- og menningarmálum, jöfnun lífskjara og ýmsum þáttum sem snúa að umhverfismálum og náttúruvernd.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að allflest, eins og skýrslur benda til, sem lagt var til í þessari þáltill., sem er núgildandi byggðaáætlun, hefur verið framkvæmt. Þegar allt þetta lið góðra manna úr Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og frá ýmsum vísindastofnunum kemur saman til þess að semja tillögur sem lagðar eru fyrir Alþingi og menn telja að þeir hafi komist að rótum vandans en það dugir ekki til þá, því miður, hljótum við að harma það, bæði ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Þessi stóryrði sem dynja á mönnum í þingsal um þessa tillögu, að þetta sé engin byggðastefna og að ekki sé reynt að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að snúa þessari þróun við, skilar ekki neinu fyrir fólkið í landinu, herra forseti. Við þurfum að taka upp málefnalegri umræðu um þá þróun í byggðamálum sem við búum við núna. Þess vegna er afskaplega leiðinlegt að hlusta á þessi stóryrði en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Hvernig hefur verið staðið að þessum málum hingað til? Vissulega hefur allt verið lagt í að útbúa tillögur og framkvæma það sem að bestu manna yfirsýn hefur verið talið hafa einhver áhrif. Ég nefni m.a. að í atvinnumálum hafa verið lagðar 300 millj. kr. á ári til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Framlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar hafa verið tvöfölduð. Framlög til jöfnunar á námskostnaði hafa verið aukin. Unnin hafa verið ýmis stórvirki í menningarmálum. Síðast en ekki verið síst hefur verið unnið að virkjunaráformum og uppbyggingu stóriðju í landinu, sem m.a. hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur átt býsna erfitt með að gera upp við sig hvort hann styðji eða standi gegn. Við höfum orðið vitni að því í fjölmiðlum. Þó að Samfylkingin virðist vera að komast til ráðs í því máli hefur sú umræða sem afstaða þeirra hefur skapað ekki verið byggðamálum sérstaklega til góðs. En ég trúi því og veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, mun á endanum fylgja því máli eins og hann hefur gefið fastlega í skyn, sem betur fer, að undanförnu í máli sínu í ræðustól í Alþingi.

Hæstv. forseti. Þetta er staðan varðandi þær byggðaáætlanir sem við höfum verið að vinna eftir. Hæstv. iðnrh. hefur boðað að hún muni leggja fram nýja áætlun nú í vetur. Ég trúi því að það ágæta og hæfa fólk sem kallað var saman til að útbúa nýjar tillögur í byggðamálum muni koma fram með góðar tillögur til þess að vinna úr þannig að byggðaþróun í landinu snúist aftur á réttan veg. Það hljótum við hv. þm. að geta orðið sammála um að þessi íbúaþróun í landinu er okkur mjög óhagfelld og fyrir efnahagslífið í landinu er mjög slæmt að hún skuli vera með þessum hætti.