Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:25:16 (4071)

2002-02-05 17:25:16# 127. lþ. 69.15 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú er fram haldið umræðu sem hófst í gærkvöldi í hv. þingi um till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Víða hefur verið komið við í umræðunni en flestir eru á þeirri skoðun, enda því ekki í móti mælt, að landsbyggðin hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og sérstaklega hin síðari, þannig að fólk hefur viljað og séð hag sínum best borgið í því að flytja í stríðum straumum burt af landsbyggðinni.

Eitt af því sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum talið að hafi skipt miklu máli varðandi þetta er að flutningskostnaður er orðinn gífurlega hár og að það kostar óhemju fjárhæðir að fá vörurnar fluttar út á land, venjulega matvöru og allar aðrar vörur sem menn þurfa að sækja, því að ekki sigla skipin með vöruna á strandirnar þar sem búið er að leggja niður gamla skipafélagið sem sá um það. Ég held að Eimskipafélagið sé eina félagið sem eftir er í strandsiglingum og þær, held ég, snúast að mestu leyti um að flytja fisk frá þeim stöðum þar sem hann er veiddur og unninn.

En hér erum við að tala um áhrif þungaskattsins á vöruverðið og áhrif hans á rekstrarskilyrðin og við förum fram á það við þingið að skipuð verði nefnd sem muni skoða hvaða áhrif þungaskatturinn hefur haft á þessa þætti sl. tíu ár.

En það er, herra forseti, því miður fleira en þungaskatturinn sem hefur haft áhrif á stöðu landsbyggðarinnar. Það má tala um kvótakerfið og hvernig sjávarútvegskerfið hér á landi hefur þróast með þeim hætti að margar byggðir hafa misst kvótann og komist í uppnám af þeim sökum. Við vitum um byggðir þar sem kvótinn hefur farið jafnvel í þúsunda tonnavís í burtu með tilheyrandi afleiðingum á atvinnulífið og afkomu íbúanna.

Gerð hefur verið tilraun til þess að vera með fjarvinnslustöðvar en því miður, þrátt fyrir mörg fögur og mikil orð um fjarvinnslu, þá hefur sá grunnur sem hún var byggð á verið í raun og veru eins og spilaborg (Gripið fram í.) og fjarvinnslan öll hrunið. En sem betur fer er þó til fólk sem reynir að standa í ístaðinu og halda uppi atvinnu á þessu sviði, án þess þó að þau verkefni öll sem áttu að koma frá ríkinu hafi farið þangað.

Atvinnuþróunarfélög landsbyggðarinnar sjá sum fyrir sér blikur á lofti og mætti að mínu viti styðja betur við þau.

Ég nefndi fjarvinnslu, en það er líka annað, þ.e. fjarnám. Margir tala um mikilvægi fjarnáms. En huga þarf að því, herra forseti, hvers konar fjarnám er boðið upp á og gæta verður þess að fjarnámið sé ekki svo dýrt að fólk þurfi að greiða svo há gjöld að það hreinlega treysti sér ekki til að skrá sig í hina og þessa kúrsa sem boðið er upp á, vegna þess að þeir sem bjóða upp á fjarnámið taki svo mikið fyrir. Þetta á að vera eitt af því sem kemur byggðunum til góða þar sem ekki er hægt að koma upp fullkomnum skólum en fólk geti samt verið í heimabyggð sinni með hjálp tækninnar og nýtt slíka möguleika. En þá verður að gæta þess að þetta sé ekki svo dýrt að hver nemandi þurfi að greiða tugi þúsunda króna fyrir það að vera á einu námskeiði. Mér er kunnugt um fólk, herra forseti, sem hefur ekki lagt í að skrá sig í fjarnám vegna þess að gjöldin eru svo há. Þetta er mál sem þarf að endurskoða og rannsaka vel, hvað fólk á landsbyggðinni er að greiða marga tugi þúsunda vegna þess að það er í fjarnámi.

[17:30]

Rætt hefur verið um að þeir sem fara frá sínum heimahögum, t.d. frá þorpum þar sem ekki eru framhaldsskólar, fái svokallaðan dreifbýlisstyrk. En ef þeir geta verið í fjarnámi er ekkert óeðlilegt að sú fjárhæð sem dreifbýlisstyrknum nemur gangi til þessa fólks svo það geti staðið straum af kostnaði í sambandi við fjarnámið, auk þess hlýtur þetta náttúrlega að minnka kostnað framhaldsskólanna, þ.e. við það að fá færri nemendur til að kenna ef þeir eru annars staðar að læra.

Varðandi byggðamál og vegagerð. Hvernig hefur vegáætlun staðist? Nú er fyrirhugaður niðurskurður og ef ég hef skilið rétt er áætlað að skera niður á vegáætlun um 1,4 milljarða og fleiri hundruð milljónir voru skornar niður á síðasta ári. Þetta er nú ekki mikið framlag sem ríkisstjórnin er að leggja til uppbyggingar byggðanna, þvert á móti. Ég held að ríkisstjórninni væri nær að huga að því að styrkja byggðirnar en að íþyngja þeim eins og t.d. kom fram þegar lögum um tryggingagjald var breytt.

Herra forseti. Að lokum langar mig til að segja að í umræðunni var verið að ræða um formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann var einn af þeim fyrstu sem stóðu að því að flytja Landmælingar ríkisins út á land og hann flutti veiðimálastjóraembættið og síðan var borið mjög mikið lof á hann þegar verið var að opna þjóðgarð á Snæfellsnesi, loksins núna, fyrir að hafa verið hvatamaður að því að setja lög um það mál á sínum tíma.