Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:46:08 (4238)

2002-02-07 12:46:08# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Starfssvið Siglingastofnunar hefur tekið mjög miklum breytingum. Fyrir fáeinum árum voru, eins og við munum sem búum úti á landi, starfandi stórir vinnuflokkar á vegum Siglingastofnunar sem komu og önnuðust hreinlega hafnargerð og voru langtímum, vikum og mánuðum saman, við hafnargerð þegar þannig stóð á. Það var lagt niður og þetta er komið inn á útboðsmarkaðinn eins og flest annað. Eftir því sem ég best veit er undirbúningur að hönnun hafnarmannvirkja nú þegar í höndum sveitarfélaganna. Það eru því sveitarfélögin sem út af fyrir sig sjá um þessa þætti. Hins vegar vitum við að þekkingin, grundvallarþekkingin á hafnarmálunum sjálfum er auðvitað mest hjá Siglingastofnun og það er eðlilegt.

Hins vegar sjáum við almennt að talsverð breyting verður á hlutverki Siglingastofnunar. Það verður afmarkaðra en áður. Engu að síður er gert ráð fyrir að Siglingastofnun hafi hlutverk, menn mega ekki gleyma því að þrátt fyrir að við séum að stíga þau skref sem hérna er verið að gera er engu að síður gert ráð fyrir talsvert miklum afskiptum ríkisins af höfnum, t.d. er séð mjög vel fyrir þörfum minnstu hafnanna í landinu. Einnig er gert ráð fyrir, eins og við vitum, að ríkið komi að því að fjármagna bæði endurbætur og uppbyggingu skjólveggja og taka þátt í dýpkun o.s.frv. þannig að hlutverki ríkisins er engan veginn lokið. Það er ekki óeðlilegt að mínu mati að stofnanir ríkisvaldsins hafi aðkomu að málinu.

Hins vegar er það rétt sem hv. þm. sagði áðan að frv. gerir það að verkum að þessi mál ættu að geta orðið skýrari, og línurnar skarpari þarna á milli. Að mínu mati er enn fremur ljóst að hlutverk Siglingastofnunar verður miklu afmarkaðra.