Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 13:41:26 (4246)

2002-02-07 13:41:26# 127. lþ. 73.2 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Komið er að lokum þessarar umræðu um frv. til hafnalaga. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir málefnalega og góða yfirferð.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi, eins og kom fram hjá honum í andsvari, að afkoma sumra hafna væri erfið. Ég efast ekki um að slíkar hafnir fyrirfinnist. Staða þeirra er hins vegar afskaplega misjöfn. Það er gömul saga og ný. Ég tel, eins og ég sagði hér fyrr, eðlilegt að hv. samgn. fari yfir þetta mál og meti það.

Það er alveg ljóst að tekjur hafnanna hafa verið að aukast vegna sjávarútvegsins, bæði hækkaði aflagjaldið og hitt líka að fiskverð hefur hækkað verulega. Það sem snýr að hafnargjöldunum er tengt því verðmæti þannig að þar hefur orðið tekjuauki. Hins vegar hafa tekjurnar færst á milli hafna. Sumar hafnir hafa misst tekjur en aðrar aukið tekjur sínar. Þannig er staðan. Í því ljósi þarf að fjalla um þetta mál.

Hæstv. forseti. Annað sem ég vildi nefna örstutt er að hér var aðeins farið yfir áhrif virðisaukaskatts á rekstur hafnanna og áhrif virðisaukaskatts á verðlag í landinu. Hafnalaganefndin fór yfir þetta og það var mat hennar að þau áhrif væru óveruleg. Hins vegar er alveg ljóst að það að leggja niður hið sérstaka vörugjald, 200 millj., hefur áhrif á verðlag. Kostnaður lækkar, flutningskostnaður þar með, og það hefur að sjálfsögðu áhrif á allt verðlag því að allar vörur sem koma inn í landið ættu að geta orðið þeim mun ódýrari sem nemur þessari breytingu.

Að öðru leyti, herra forseti, sé ég ekki ástæðu til þess að bæta neinu við. Samgn. mun fá málið til meðferðar og ég er sannfærður um að þar verður vel að öllu hugað sem hér hefur komið fram. Ég vænti þess að samgn. geti unnið þetta á þeim tíma sem við höfum til vors.