Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:50:04 (4283)

2002-02-07 15:50:04# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. mikillega afsökunar á því að hafa ekki hlustað nægilega vel á mál hans. Nú er það þannig að ég hlusta alltaf vel og hef alltaf gert þegar þessi hv. þm. talar, allar götur frá því við komum saman á þing og hv. þm. háði miklar höggorrustur við einn af kollegum okkar sem nú er ekki lengur hér í þessum sölum, hv. þáv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, m.a. um málefni sjómanna og annað slíkt.

Ég þakka hv. þm. fyrir svörin. Það má virða það við hann að hann sýnir mikið jafnaðargeð yfir því að hv. forsn. hefur ekki fyrir því að svara bréfi þingmanns. Aldrei mundi mér koma til hugar, herra forseti, að svara ekki bréfum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sendi mér. (Gripið fram í.) Ég var að segja það, herra forseti, að mér finnst með ólíkindum að hv. forsn. svari ekki erindum sem henni berast. (Gripið fram í: Frá þingmönnum.) Ég tel að henni bæri skylda til að svara öllum erindum sem henni berast utan húss, hvað þá þegar þau hrjóta úr penna manna sem starfa innan húss, hvað þá þegar þau varða jafnmerkilegt mál og mikilvægt og sjálfan þjóðfánann.

Herra forseti. Ég lýsi undrun minni á þessu og tek undir það með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að hér er mikil nauðsyn á að menn stilli saman byssur sínar til að komast yfir þá sem í vegi hafa staðið til þessa. En ég vil ekki leggja þá sök við neins manns dyr eða neinnar nefndar og allra síst forsn. fyrst hv. flutningsmaður er fullur af þessu jafnaðargeði og í þessum mikla sáttahug, enda sýnist mér að allt bendi til þess að hann muni hafa hér mikinn sigur.