Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:30:42 (4305)

2002-02-07 17:30:42# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu nema þann hluta að hún hefði heyrt áður þennan málflutning sem hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir var með. Hún sagðist hafa heyrt hann hjá hv. þingmanni en jafnframt frá fulltrúum birgjanna. Hún spyrti þarna saman skoðanir og sannfæringu hv. þm. eins og hún væri fulltrúi birgjanna.

Ég kann ekki alveg að meta það þegar mönnum eru gerðar svona upp skoðanir og meiningar. Ég hefði viljað að þessi orð hefðu ekki fallið þar sem hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir flutti alveg ágæta ræðu. Ég get að öllu leyti tekið undir hana enda sömu skoðunar og þó tel ég mig ekki vera fulltrúa birgjanna. Mér finnst miður að þessi orð hafi fallið og sannfæring hennar sett á það plan að hún sé hérna sem fulltrúi birgja.