2002-02-11 18:05:38# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, en eins fram hefur komið er sú skýrsla sem við fjöllum nú um fyrir árið 2000 en komið er fram á árið 2002. (Gripið fram í: Það týndist eitt ár.) Týndist eitt ár, segir hv. þm. Það má einnig benda á og hefur reyndar verið gert hér í umræðunni að ný byggðaáætlun sem átti að taka gildi í byrjun þessa árs hefur enn ekki komið fyrir Alþingi. Hún mun hafa verið samþykkt í ríkisstjórn, hún hefur ekki verið rædd í báðum stjórnarflokkunum en okkur er sagt að við getum náðarsamlegast nálgast hana á netinu. Þetta eru vinnubrögð sem ber að mótmæla harðlega.

Í skýrslu Byggðastofnunar er margt fróðlegt að finna. Hér er t.d. fjallað um möguleika landsbyggðarinnar og fyrirtækja á landsbyggðinni til að afla lánsfjár. Hér segir, með leyfi forseta, í skýrslunni:

,,Ásókn í lánsfé hefur ekki verið meiri en nú og kemur þar m.a. til að stærri fyrirtæki á landsbyggðinni eru aftur farin að snúa sér til Byggðastofnunar enda vaxtakjör hagstæðari en hjá öðrum lánastofnunum í mörgum tilvikum. Þá er því ekki að leyna að svo virðist sem bankarnir reyni að komast hjá því að veita há lán til langs tíma til fyrirtækja á smærri stöðum. Bankarnir hafa neitað þessum ásökunum en ásókn í lán frá Byggðastofnun hefur aukist verulega og það verður ekki einvörðungu skýrt með vaxtakjörum.``

Þetta var tilvitnun í skýrslu Byggðastofnunar.

Þetta leiðir hugann að þeim kerfisbreytingum sem innleiddar hafa verið í landinu á liðnum árum að frumkvæði ríkisstjórnar, m.a. á sviði bankamála. Fyrir nokkrum árum eða nokkrum missirum var ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka, breytt í hlutafélög og áttu þeir að starfa á þröngan markaðshátt. Það bæri að úthýsa öllum félagslegum sjónarmiðum, jafnvel var talað um það af mestu fyrirlitningu að sú tíð væri liðin og eigi að vera liðin að bankar séu einhvers konar félagsmála- eða þjónustustofnanir við landsbyggðina. Þannig var talað.

Og þetta er árangurinn. Bankarnir neita fyrirtækjum, samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar, um lán, há lán til langs tíma ef þau er að finna í fámennum byggðarlögum. Þetta er stefna sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum varað við. Við höfum bent á að bankar séu fjármálastofnanir sem hafi margþættu hlutverki að gegna, þar á meðal mikilvægu þjónustuhlutverki. Og það er þetta þjónustuhlutverk sem er víkjandi fyrir arðsemishugsuninni og birtist með þessum hætti.

En þetta leiðir hugann að öðrum kerfisbreytingum sem hafa litið dagsins ljós og tengjast einkavæðingunni. Við höfum margoft vakið máls á því hvernig einkavæðingin hefur komið við landsbyggðina og verið mjög í óhag fámennum byggðarlögum. Sérstaklega hefur þetta komið skýrt í ljós varðandi hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Sú var tíðin að Póstur og sími, sem störfuðu undir einu þaki, rak þjónustuútibú víðs vegar um landið. Þetta voru hagstæðar rekstrareiningar sem hentuðu afar vel íslenskum aðstæðum. Síðan gerist það að stofnunin er klofin upp, gerð að hlutafélagi og síðan hafa menn verið að keppast við að loka þessum útibúum og þykjast góðir ef þeir geta sameinað þessa starfsemi einhverri annarri atvinnustarfsemi í fámennum byggðarlögum.

Auðvitað hefði verið miklu betra og heppilegra að viðhalda því formi sem við bjuggum við og eins og ég segi hentuðu mjög vel íslenskum aðstæðum. En skipun kom frá Brussel um að við ættum að breyta því fyrirkomulagi en ríkisstjórnin gekk lengra. Hún ákvað að gera þær stofnanir að hlutafélagi með þessum árangri.

Herra forseti. Þetta leiðir hugann að hlutverki hins opinbera gagnvart byggðum landsins. Hvert á hlutverk ríkis og sveitarfélaga að vera í atvinnu og atvinnuuppbyggingu? Að okkar dómi er meginhlutverk ríkis og sveitarfélaga varðandi byggðaþróun að sjá fyrir traustu, öflugu stoðkerfi, að sjá fyrir samgöngum, að sjá fyrir skólum, að sjá fyrir heilbrigðisþjónustu, fjarskiptum og þar fram eftir götunum. Þetta er fyrst og fremst hlutverk hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.

Það er þetta hlutverk sem hefur verið að veikjast á undanförnum árum. Auðvitað á maður ekki að orða það svo að það hafi verið að veikjast. Það hefur verið veikt með lagabreytingum sem hafa verið ákveðnar hér í þessum sal. Þetta er nokkuð sem menn vilja oft gleyma þegar verið er að tala um byggðaþróunina. Annað er að hlutverk ríkisins er að sjálfsögðu að búa atvinnustarfseminni heppilegan ramma. Við setjum hér lögin sem atvinnulífið og efnahagslífið í heild sinni starfar samkvæmt. Þar skiptir máli hvernig við höldum á fiskveiðistjórnarmálum, hvort við ætlum að búa við kerfi eins og við gerum nú sem heimilar framsal á kvóta og óheftan flutning á milli byggðarlaga eða hvort við ætlum að treysta hlut einstakra byggðarlaga í þeim efnum.

Annað sem hefur verið til umræðu hér á Alþingi undanfarna daga er hvernig tekið skuli á skattamálum. Tillögur hafa verið uppi um að hafa eigi mismunandi skatta á höfuðborgarsvæðinu eða þéttbýlissvæðinu suðvestanlands annars vegar og byggðum sem eru fjarlægari og fámennari hins vegar. Um þetta eru skiptar skoðanir. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að fara þá leið, við eigum að hafa sama skattastigið í landinu öllu en jafna síðan aðstöðu fólks og fyrirtækja í landinu öllu í ráðstöfun þessa skattfjár. Það er mín skoðun, en um þetta eru mismunandi sjónarhorn og sjálfsagt að skoða málin frá ýmsum hliðum.

Enn eitt sem hið opinbera, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, getur gert til að styðja atvinnulíf á landsbyggðinni er að auðvelda aðgang að fjármagni, nýsköpunarfjármagni, bæði í formi styrkja og í lánsfjármagni. Út á það gekk sú tillaga sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram fyrr í vetur þar sem við vorum með beina tillögu um nýsköpunarfjármagn sem við vildum beina fyrst til Austurlands, 400 millj. á ári í sex ár, og fara síðan til annarra byggðarlaga, meta árangurinn að þremur árum liðnum og fara síðan í ljósi reynslunnar til annarra hluta landsins. Þetta er enn eitt dæmi um hvernig hið opinbera getur haft afskipti af atvinnu- og byggðaþróun í landinu.

Við búum hins vegar við þá ógæfu að hafa yfir okkur ríkisstjórn sem sér bara eitt og aðeins eitt og það er álver. Álver á að leysa allan vanda. Þetta er úrræði í anda stalínismans að leysa atvinnumál heilla byggðarlaga með því að setja alla sem þar búa inn í eina verksmiðju. Það er grunnhugmyndin sem þarna býr að baki í stað þess að reyna að stuðla að fjölbreytni. Svo öfugsnúið er þetta orðið að þeir sem standa lengst til vinstri í stjórnmálum eru með lausnir sem einhvern tíma hefðu verið nær miðjunni, jafnvel til hægri, á sama tíma og hægri mennirnir eru talsmenn þessara gömlu stalínisku úrræða. Við segjum: Það er hlutverk hins opinbera að sjá um grunninn, um grunnþjónustuna að tryggja aðgang að fjármagni og auðvelda brautina fyrir frumkvöðlum. Síðan mun fólkið og fyrirtækin sjá um hitt. Það er okkar nálgun.

En hægri mennirnir spyrja alltaf: En hvað ætlið þið þá að gera ef þið viljið ekki álver? Hvað ætlið þið þá að gera? Þeir trúa ekki á frumkvæði einstaklinga eða fyrirtækja, þeir gera það ekki. Þeir ætla að troða sinni heildarlausn niður í kokið á heilum landshluta. Það er þeirra nálgun. Ég hefði haldið að hér hafi verið höfð endaskipti á hlutunum.