Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:55:06 (4445)

2002-02-12 14:55:06# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt mjög gott að taka sem dæmi kræklingaeldið í Arnarfirði sem ég þekki ekki neitt. Það á væntanlega að skila hagnaði, þ.e. tekjum umfram gjöld, á næstu árum og áratugum. (Gripið fram í: Ef tryggingagjöldin ...) Þegar skatturinn er lækkaður á hagnaðinn fá væntanlegir fjárfestar meira í sinn hlut, mig minnir að það sé 17% meira, þ.e. ríkið lætur þá frekar í friði með þessa fjárfestingu í Arnarfirði. Ég reikna með að miklu auðveldara sé að fá fjármagn núna, áhættufjármagn, til slíks verkefnis þegar væntanlegir fjárfestar sjá meira eftir af hagnaðinum. Skattalækkunin sem er almenns eðlis nýtist nýsköpun og fjárfestingu alls staðar, líka úti á landi, alveg sérstaklega úti á landi enda skilst mér að þar séu mörg góð tækifæri.

Varðandi þá sem er trúað fyrir að deila út fé. Ég held að sagan ætti að hafa upplýst okkur nægilega vel um þau gífurlegu fjárfestingarmistök sem hafa átt sér stað víða, sérstaklega úti á landi en líka í Reykjavík, þar sem menn voru að deila út fé. Þeir gerðu það ekki óheiðarlega, ég er ekki að gefa það í skyn, þeir gerðu það samkvæmt þeim reglum og þeim markmiðum sem þeim voru sett. En markmiðin voru bara ekki að skila hagnaði eða að peningarnir skiluðu sér. Markmiðin voru allt önnur. Byggðasjónarmið réði ríkjum eða verið var að auka atvinnu eða eitthvað allt annað og það leiddi til þess að þessar fjárfestingar voru oft mjög lakar, kostuðu þjóðarbúið mikið og fyrirtækin fóru á hausinn. Og fyrirtækin sem kepptu við þessi fyrirtæki fóru líka á hausinn, þau standast ekki samkeppnina þegar einhver fær gefnar 10 milljónir.