Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:35:43 (4583)

2002-02-13 19:35:43# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GunnS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:35]

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um óhefðbundnar lækningar. Margir eru þeirrar skoðunar að óhefðbundnar lækningar séu vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Mér skilst að þessar lækningar skiptist í 26 flokka og séu stundum nefndar hjálækningar og jafnvel andalækningar og sum svið þessara lækninga teljist vera á mörkum lækninga og hreinlega trúarbragða.

Mér skilst að engar reglur gildi um þessa starfsemi hér á landi en mér er kunnugt um að svo sé í Bandaríkjunum og á Bretlandi. Í Bandaríkjunum er fullyrt að þessi starfsemi velti um 46 milljörðum dollara á ári og að veltan hafi aukist úr 20 milljörðum á fimm árum. Það er mikilvægt að öðlast yfirsýn yfir þessa starfsemi hér á landi af því að þeim virðist fjölga sem sækjast eftir þessari þjónustu og því hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrrh.:

1. Hefur ráðherra upplýsingar um umfang óhefðbundinna lækninga og árangur þeirra?

2. Hvað áætlar ráðherra að þessi starfsemi velti miklum fjármunum á ári?

3. Hvert er mat ráðherra á slíkum lækningum?

4. Hafa stjórnvöld eitthvert eftirlit með fyrrgreindri starfsemi?

5. Er fyrirhugað að sett verði sérstök löggjöf um óhefðbundnar lækningar?