Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:06:56 (4711)

2002-02-14 16:06:56# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þetta framlag Framsfl. til þessarar umræðu. Hv. þm. hefur eitthvað misheyrst áðan vegna þess að ég nefndi enga ákveðna tölu. Ég sagði að einhvern tímann hefði því verið haldið fram að kostnaður við að gera stór göng væri einn milljarður á hvern kílómetra. Síðan bætti ég því við að margt kæmi til, tækninni fleygði fram, en eftir sem áður værum við sjálfsagt að tala um kostnað sem næmi milljörðum króna. Þetta held ég að ég hafi sagt.

Ég er ekki sérstakur fylgismaður opinna skurða. Ég er andvígur þessum framkvæmdum almennt. Ég tel þær ekki standast út frá umhverfissjónarmiði og í efnahagslegu tilliti standast þær engan veginn.