Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:45:42 (4780)

2002-02-14 21:45:42# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig að bannað er að henda rusli í sjó. Auðvitað er ekki gott að sjá það rusl sem safnast upp í fjörum. Mér er kunnugt um að það er talsvert vandamál, t.d. á Vestfjörðum. Hefur ítrekað verið haft samband við umhvrn. varðandi þau mál og við beðin um að styrkja þar verkefni sem felast í að ganga eftir fjörum til að hreinsa þau svæði.

En gildissvið þessa frv. tekur til hvers konar starfsemi sem tengist framkvæmdum, skipum og loftförum hér á landi í lofthelgi, í íslenskri mengunarlögsögu o.s.frv. Lögin taka til þessa eins og önnur lög gera reyndar. Hins vegar er það rétt sem hér kom fram að nýmælin eru aðallega tengd bráðamengun. Hér er um atferli að ræða sem ég tel mjög slæmt og væri afar gott ef þeir sem henda rusli í sjó mundu nú taka sig saman og hætta því. Ég veit að þetta er talsvert vandamál, eins og ég gat um áðan, t.d. á Vestfjörðum.

Ég lít svo á að frv. taki til þessara atriða en sjálfsagt er að það verði skoðað betur í umhvn. þegar þetta mál kemur til skoðunar þar.