Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:55:05 (4784)

2002-02-14 21:55:05# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að koma hér upp í andsvar til að bregðast við ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Varðandi það að mikil vinna sé eftir í þessu máli tel ég að búið sé að vinna málið afar vel í umhvrn. Það var sent til umsagnar 37 aðilum þannig að fjölmargir hafa komið að þessu máli. Eigi að síður er full ástæða til að fara vel yfir það í nefnd.

Hv. þm. kom aðeins inn á hvernig menn ganga um auðlindina. Ég túlka hans orð sem svo að hann hafi þá verið að ræða um áhrif t.d. veiðarfæra á hafsbotninn. Ég deili þeim áhuga sem fram hefur komið hjá fjölmörgum aðilum á að þetta beri að skoða mun betur en við höfum gert. Það er alveg ljóst að togveiðarfæri geta haft neikvæð áhrif á botninn og t.d. sléttað út kórala sem eru mikilvægir fyrir afkomu stofna. Hins vegar falla þau mál ekki undir umhvrn. Hafrannsóknastofnun er einmitt núna að rannsaka áhrif veiðarfæra á botninn og kórala á botni. Þetta kom einmitt til umræðu í gær í þinginu í fyrirspurnatíma. Hv. þm. Katrín Fjeldsted spurðist þá fyrir um hugsanleg svæði í sjó sem bæri að friða, kóralsvæði t.d. Hér á Íslandi er einungis búið að friða eitt svæði í sjó, þ.e. hverastrýtur í Eyjafirði.

Ég tel að við Íslendingar þurfum að gera átak í að rannasaka betur áhrif veiðarfæra á botninn. Það er einmitt verið að gera nú um þessar mundir undir stjórn Hafrannsóknastofnunar.