Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:09:05 (4857)

2002-02-18 18:09:05# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með að þetta frv. til laga um varnir gegn landbroti er komið fram. Eins og komið hefur fram í umræðunni er það Suðurland sem trúlega verður mest fyrir barðinu á vatnsflaumnum. Við sáum í byrjun þessa árs þegar miklir umhleypingar urðu á Suðurlandi og vatnið æddi fram hvað það tók mikið land í burtu. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni þegar land rennur í burtu í stórum stíl. Það er ekki nóg með að það fjúki burt heldur rennur það líka burt til hafs. Það er mjög sárt að sjá á eftir því.

Lögum um fyrirhleðslur var breytt 1975 og síðan hafa Landgræðslan og Vegagerðin haft þann málaflokk saman. Ég held að samstarf þar á milli hafi verið mjög gott. Það er ljóst að mjög þýðingarmikið er að vinna gegn landeyðingu og gróðurskemmdum þar sem ágangur vatna getur farið mjög illa með land. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir rakti sögu frá Markarfljóti sem var mjög skemmtilegt að hlusta á og sýnir hvað bændur eru áhugasamir um að verja landið. Það hafa bændur við Markarfljót og sveitarstjórnarmenn svo sannarlega gert og haldið okkur þingmönnum við efnið.

Áðan var minnst á meginregluna um að sá beri kostnaðinn sem hafi samgöngumannvirki eða veitumannvirki að vernda. Ég vil bæta þeirri spurningu við til hæstv. landbrh. hvort Viðlagasjóður komi inn í varðandi vatnsveitu til Vestmannaeyja ef hún skemmist af völdum flóða.

Eins er það varðandi Jökulsárlón sem hefur verið vakið máls á núna í fréttum. Ég held að Páll Imsland hafi í morgun verið í útvarpinu að ræða áhyggjur af úrræðum ef vegurinn mundi rofna. Það gengur náttúrlega ekki að slíta landið í sundur þegar búið er að tengja það með þessu góða vegakerfi sem komið er á. Þá er spurning hvort það sé hlutverk Vegagerðarinnar að verjast þarna ágangi sjávar og fara í einhverjar tilraunaaðgerðir til að vernda brúna. Það er orðið afar stutt fram í sjó og þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Á þessu máli þarf að taka fyrr en síðar.

Ég held að landbn. muni fara gaumgæfilega yfir málið og ég fagna því að frv. skuli vera komið fram því að það er mjög brýnt að tekið verði á þessum málum.