Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:45:54 (4958)

2002-02-19 19:45:54# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki alveg séð hvernig framkvæmd þessa frv. sem hér er verið að ræða um að veita mönnum valfrelsi til þess að fara á milli sjóða gengur upp án þess að afnema skylduaðildina, eins og hv. 1. flm. Hjálmar Árnason sagði áðan. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta frv. vekur ákveðnar efasemdir hjá mér um að við séum að lagfæra það kerfi sem við höfum. Við höfum samtryggingarkerfi og þar til viðbótar höfum við séreignarsparnað.

Í niðurlagi greinargerðar frv. segir, með leyfi forseta:

,,Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu.``

Ef svo er, eins og hér hefur komið fram í máli manna, að talið er að þeir yngri muni velja sér að fara í einhvern sjóð, ætli það endi þá ekki líka þannig að einhverjir þeir eldri sem telja sig hafa lök réttindi vilji fara þangað á eftir þeim ef sá sjóður er sérstaklega vænn til þess að fara í þó að það taki fimm ár að bíða eftir því að réttindaflutningurinn eigi sér stað?

Ég verð að segja alveg eins og er að ég fæ ekki alveg samhengi í þetta mál. Ég held að við megum með engum hætti fórna því fyrirkomulagi lífeyrissjóðanna sem er í dag. Lífeyrissjóðirnir eru að uppbyggingu til sameignarsjóðir, þ.e. þeir veita samtryggingu. Í þeim skilningi eru þeir sameignarsjóðir. Ef eitthvert okkar sem er í lífeyrissjóði verður óvinnufært eða stendur höllum fæti, missir atvinnu eða verður öryrki þá getum við fengið út úr lífeyrissjóðum og er það þá framreiknað út á okkar stig. Í því felst ákveðin samtrygging sem aðrir sjóðfélagar bera með okkur. Svo er einnig háttað um réttindi barna og barnalífeyri.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort sú hugsun að menn geti farið á milli sjóða með því lagi sem hér er lagt til hljóti ekki að leiða til þess að skylduaðildin hverfi og hvort ekki komi fram krafa um það frá lífeyrissjóðunum að geta takmarkað aðild að sjóðunum miðað við aldur því ef einn lífeyrissjóður verður þannig að þangað velst fyrst og fremst ungt fólk og svo vill hluti af eldra fólki færa sig þangað yfir vegna þess að það telur að sá sjóður standi vel þá er hætt við því að þeir sem fyrir eru verði ekki sáttir við það vegna þess að sá sem inn kemur, svo framarlega sem hann greiðir í sjóðinn í ákveðinn tíma, öðlast framreikning. Þá verða þeir sem fyrir eru í sjóðnum að bera það eins og sjóðirnir eru hugsaðir í dag.

Og getur sá sem fer á milli sjóða farið oft á milli sjóða? Einhver fer t.d. á milli sjóða og er þar í þrjú ár. Hann óskar eftir flutningi sem ekki getur orðið fyrr en eftir fimm ár en sér svo að sá sjóður sem hann fór í hefur fallið verulega í ávöxtun varðandi sína fjármuni sem er nú bara alþekkt. Nægir í því dæmi að vitna til þess sem hefur verið að gerast hér á undanförnum tveimur árum þegar sjóðir hafa verið jafnvel með upp í 27% ávöxtun eitt árið en mínustölu einu, tveimur árum seinna. Getur þá sá sem hefur farið á milli sjóða, hefur verið þar í þrjú ár og vill fara til baka, látið kyrrt liggja með þennan flutning sem hann er búinn að biðja um eða fara flutningsréttindin yfir eftir sem áður þó að hann sé farinn úr sjóðnum? Ég held að þetta skapi talsverða lausung og ég held að það þurfi að huga vel að því hvernig þetta mál er upp byggt og hvernig það er hugsað í hv. nefnd.