Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:33:57 (5044)

2002-02-26 13:33:57# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs út af fréttatilkynningu frá hæstv. sjútvrh. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Eins og þingheimur veit hafa staðið yfir miklar deilur um stjórn fiskveiða og ég rifja það upp að stjórnarflokkarnir lofuðu því hástöfum fyrir síðustu kosningar að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að ná sátt um það mál. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að maður hélt að stjórnarflokkarnir væru að stíga raunhæf skref til þess með tillögum auðlindanefndar vegna þess að í henni var að finna vísi að sátt sem við í stjórnarandstöðunni hefðum getað tekið þátt í.

Nú liggur það hins vegar fyrir, herra forseti, að ekki er rætt við stjórnarandstöðuna. Stjórnarandstaðan lagði eigi að síður fram þingmál um það hvernig hún teldi að ætti að reyna að ná sátt um þetta mál. Við lögðum fram hugmynd að nefnd þar sem hver þingflokkur ætti fulltrúa og í henni yrði reynt að ná sátt á grundvelli þess að afnema gjafakvótann í gegnum fyrningu. Hvers vegna lögðum við það fram, herra forseti? Vegna þess að það blasir við að meiri hluti er fyrir því í landinu. Samfylkingin er þessarar skoðunar, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er þessarar skoðunar, Frjálslyndi flokkurinn er þessarar skoðunar, rífur helmingur þeirrar nefndar sem Framsfl. fól að móta stefnu flokksins í fiskveiðimálum var þeirrar skoðunar og fimmtungur landsfundar Sjálfstfl. líka. Það liggur því fyrir, herra forseti, að í landinu og í hinni pólitísku flóru er meiri hluti fyrir þessu.

Það var ekki einu sinni haft fyrir því að ræða við okkur í stjórnarandstöðunni, herra forseti, heldur ætlar hæstv. sjútvrh. að knýja núna í gegn frv. sem byggist fyrst og fremst á óskadraumum LÍÚ og stórútgerðarinnar. Við erum ekki virt viðlits, herra forseti, og það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan mun taka fast á móti í þessu máli. Við munum ekki láta valta yfir okkur og vilja þjóðarinnar í þessu mikilvæga máli.

Við viljum sátt í málinu en ríkisstjórnin vill greinilega ófrið.