Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:09:10 (5085)

2002-02-26 15:09:10# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Skilaboðin til mín og okkar í iðnn. eru þá sem sagt þau að þetta snúist um stóriðju úti á landi og síðan áhrif ríkisvaldsins á atvinnutækifærin. Það er út af fyrir sig ágætt að hafa það en spurningin er varðandi ríkisvaldið og áhrif á atvinnutækifæri.

Nú er það alveg rétt sem hv. þm. segir að hann hefur verið í sveit okkar sem mjög höfum gagnrýnt það með hvaða seinagangi ríkisvaldið hefur komið að því, m.a. að nýta sér nýja tækni til að færa til störf eða búa til störf annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. En er það virkilega svo að mati hv. þm. að í þessari byggðaáætlun sé mun lakar tekið á því máli en í gömlu góðu byggðaáætluninni hans? Eða þótti honum hún svo góð að e.t.v. væri ástæða til að framlengja hana hvað þetta varðar? Sér hann ekki möguleika til frekari þróunar á þessu sviði í þeirri áætlun sem hér er verið að fjalla um? Nú er ég að spyrja, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst sem leitandi þingmaður í hv. iðnn. sem vill gjarnan þiggja góð ráð og góðar hugmyndir, m.a. hjá hv. þm.