Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:57:38 (5292)

2002-02-27 14:57:38# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Ég er í rauninni sammála meginmáli því sem hér hefur verið flutt um mikilvægi sjúkraþjálfunar almennt í samfélaginu. Ég tel að það sé afar mikið og fari vaxandi og sé einn af grundvallarþáttum í heilbrigðisþjónustunni.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að stefnan var mörkuð með lögunum sem við vorum að samþykkja, að gera ekki upp á milli rekstrarforma. Við erum með nýsamþykkt lög að því leyti.

Þriðja viðkvæma málið í þessu er hvað gerist 1. mars. Auðvitað hef ég miklar áhyggjur af því eins og hv. 6. þm. Reykn. kom inn á og var síðan ítrekað hér. Ég hef miklar áhyggjur af því ef það verður svo að þessi mál verða í hnút áfram. Ég vil auðvitað fara yfir alla þætti þess.

En tryggingaráð brást við þessum hugsanlegu breyttu aðstæðum ef samningar eru ekki í gildi á þennan hátt. En ég vona að það takist að leysa úr þeim hnút sem þetta mál er í og ná samningum. Það er meginmálið í mínum huga. Ef hægt er að stuðla að því, þá vil ég gera það. En það er eins með þessa kjarasamninga og aðra, það geta ekki allir fengið sitt fram. Hins vegar er nauðynlegt að leysa þann hnút sem hér er uppi og til þess verða auðvitað allir að leggja eitthvað á sig.