Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:30:05 (5578)

2002-03-05 15:30:05# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög vel í lagt að atvinnugreininni sé gert að greiða þennan kostnað sem um er að ræða, þ.e. fiskveiðieftirlit Fiskistofu og stjórn fiskveiðanna þar, en Fiskistofa hefur reyndar fleiri hlutverk en þessi tvö, og síðan rannsókn Hafrannsóknastofnunar sem varðar nýtingu fiskstofnanna. Ég sé ekki að rétt sé að þessi atvinnugrein sérstaklega greiði þar að auki opinbera stjórnsýslu frekar en gera þá kröfu til annarra greina, hvað þá að hún greiði sérstaklega löggæslu sem í þessu tilfelli er þá á hendi Landhelgisgæslunnar.

Eins og kom fram við umræðuna í gær lít ég ekki á sjómannaafsláttinn sem eitthvert tillegg til útvegsins. Ég á ekki von á því að margir sjómenn muni hætta að sækja sjó vegna þess að sjómannaafslátturinn verði lagður af og þar af leiðandi hefur þetta lítil eða nokkur áhrif á það hvernig útgerðinni tekst að manna fiskiskipaflotann.

Fyrst hv. þm. hefur farið út í greiningu á kostnaðinum og komið með þessar tölur, 5,5 milljarða og 4 milljarða, þá hlýtur það að vera vegna þess að henni finnist það a.m.k. koma til greina að gjaldið fyrir kostnaðinn sé einhvers staðar nálægt þessum tölum eða þarna á milli og þar að auki ætti að koma sjáanleg hlutdeild í auðlindarentunni. Því vil ég spyrja hv. þm.: Telur hún að gjaldið sem lagt er til í frv. sé of lágt, of hátt eða einhvers staðar nærri lagi?