Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:52:00 (5581)

2002-03-05 15:52:00# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. notaði orðin: þjóðnýta auðlindina, að þjóðnýta aðganginn að auðlindinni. Af hverju notaði hann þau? Hann var að tala um að ef farið yrði að innkalla veiðiheimildir og úthluta þeim öðruvísi þá væri það þjóðnýting. Hvers konar skilningur felst í þessu? Það er sá skilningur að þeir sem eru núna í útgerð á Íslandi eigi auðlindina og ef nokkuð verði hróflað við því þá sé það þjóðnýting, þá sé verið að taka þetta frá þeim sem eiga auðlindina.

Þjóðin er á allt öðru máli. Hv. þm. er í miklum minni hluta með þá skoðun að handhafar kvótans núna séu eigendur hans. Við höfum lagt til breytingar á þessu og erum gjörsamlega andstæðrar skoðunar um að hægt sé að kalla það þjóðnýtingu þó að þjóðin ákveði að fara einhvern veginn öðruvísi að við þessa úthlutun. Hv. þm. hefur tekið þátt í því trekk í trekk að gera breytingar á því hvernig þessu er úthlutað, taka veiðiheimildir af mönnum, þjóðnýta þær þá samkvæmt hans eigin orðalagi, og láta einhverja aðra hafa. Hann hefur viljað gera miklu meira af því en gert hefur verið. Hann hefur þá sem sagt verið að þjóðnýta veiðiheimildir til þess að láta aðra hafa. (Gripið fram í: Smábátamenn.) Já, já, í stórum stíl, til smábáta og svo breytingar á kerfinu. Það er eiginlega svolítið merkilegt að hv. þm. skuli setja þessa skoðun fram.

En það sem mig langar mest til að vita betur er hvernig hv. þm. sjái fyrir sér þá stórkostlegu breytingu að fara út úr kvótakerfinu án þess að hafa til þess einhvers konar fyrningarleið eða aðlögunartíma handa þeim sem fyrir eru í greininni ef svona stórkostlegar breytingar eiga að verða á veiðistjórninni eins og hann er að lýsa, því að ekki er gott að sjá það fyrir sér að það muni ekki koma misjafnlega niður á þeim útgerðarfyrirtækjum sem verða við lýði þegar þær breytingar ríða yfir.