Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:23:27 (5595)

2002-03-05 16:23:27# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. upplýsir að hann viti ekki hvernig þetta kerfi muni virka. Hann er búinn að lýsa því yfir að kvótakerfið eins og það er í dag virki ekki. Hann leggur síðan til alveg nýtt kerfi sem hann veit heldur ekki hvernig á að virka. Ég átta mig ekki á svona röksemdafærslu. Við vitum nákvæmlega hvernig kvótakerfið hefur virkað á síðustu árum. Við ættum að geta ímyndað okkur hvernig það virkaði þá á næstu tíu, tuttugu árum til viðbótar. Það á reynslan að segja okkur.

Fyrningarleiðin sem hv. þm. er að leggja til með öðrum byggist á að þjóðnýta fyrirtækin sem núna starfa í sjávarútvegi og færa eignir þeirra, þ.e. aflahlutdeildina, til sveitarfélaganna, til verkalýðsfélaganna eða einhverra allt annarra. Hvað ætlar hv. þm. að gera við fyrirtækin í sínu kjördæmi? Hvaða framtíð sér hann fyrir fyrirtæki eins og Hraðfrystihúsið Gunnvöru á Ísafirði sem er einn máttarstólpa atvinnulífs í kjördæmi hans? Hv. þm. hlýtur að hafa einhverjar áhyggjur af þessu. Hann getur ekki lagt svona til án þess að átta sig á stöðu þessa höfuðfyrirtækis í byggðarlagi sínu.