Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:37:30 (5700)

2002-03-07 10:37:30# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir skriflegt svar forsrn. sem liggur fyrir þinginu þótt það sé um margt mjög mótsagnakennt. Í munnlegu svari sínu leggur hæstv. forsrh. núna áherslu á alla þá óvissuþætti sem málinu tengjast.

En um eitt eru menn sammála: Verði ráðist í þessar framkvæmdir eru talsmenn Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka á einu máli um að við þyrftum að brjótast í gegnum mikinn öldufald. Síðan segja þeir: Fram undan er lygn sjór. Þegar við komumst þangað verður allt í himnalagi. En er þetta svoleiðis? Ég held ekki.

Á þessu ári hafa vextir verið lækkaðir einu sinni, um 0,8%. Bæði atvinnulífið og heimilin kalla á miklu meiri vaxtalækkun. Nú er verið að tala um mögulega vaxtahækkun upp á 2--2,5%. Vita menn hvað þetta þýðir fyrir skuldsett heimili, fólk sem skuldar um 10 millj. kr. íbúðalán? Það er 200 þús. kr. aukaskattur á hverju einasta ári. Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa fyrir hönd heimilanna ef þessi yrði raunin?

Síðan verð ég að segja það, herra forseti, að í því svari sem hér liggur fyrir þinginu er margt mjög mótsagnakennt. Þannig eru annars vegar leiddar að því líkur að í aðdraganda og á fyrstu stigum framkvæmda muni gengi krónunnar hækka og verðbólga lækka. Annars staðar í svarinu er hnykkt á því að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna. Síðan segir að í útreikningum Þjóðhagsstofnunar sé stuðst við óbreytt gengi.

Herra forseti. Hér er um svo mótsagnakenndar yfirlýsingar og fullyrðingar að ræða að það er ljóst að við þurfum að fara miklu betur í saumana á þessum málum í efh.- og viðskn. þingsins áður en þau verða tekin út úr nefnd og send þinginu til afgreiðslu.