Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:20:22 (5768)

2002-03-07 16:20:22# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að athyglisverð var sú tillaga hv. þm. að hann telji stofnunina þurfa að hafa stjórn yfir sér og lagði til viðbót við 3. gr. í þeim efnum. Ég er alveg sammála því að sú tilhneiging ríkisstjórnarinnar að þurrka út stjórnir allra stofnana er nefnilega orðin dálítið athugunarverð. Það er sannarlega þess virði að skoða það mál í heild sinni nánar. (Gripið fram í.) Ég fagna því auðvitað að hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem er stjórnarþingmaður og þingmaður Sjálfstfl., skuli þarna vera á öndverðum meiði við stjórnarherrana.

Varðandi hins vegar lúpínuna, þá er eiginlega ekki hægt annað en koma í létt andsvar vegna hennar. Ég segi sem Reykjavíkurbúi: Esjan þarf ekki lúpínuna til að verða blá. Mér þykir alveg skelfilegt að keyra fram hjá Esjunni sem orðin er blá í návígi vegna mikils lúpínuakurs sem hefur náð bólfestu í henni. Það er ekki rétt, sem hv. þm. segir, að lúpínan hopi undantekningarlaust þegar hún hefur kallað til sín grasið. Það er alls ekki rétt. Hún dreifir sér áfram og fer á þá staði sem við viljum jafnvel alls ekki sjá hana á. Það sem skiptir mestu máli í notkun lúpínunnar á Íslandi er að hún sé ekki nýtt stefnulaust heldur að um hana og aðrar erlendar tegundir, svokallaðar innrásartegundir eins og margir hafa viljað nefna þær, verði mótuð mjög skýr stefna og það verði algerlega eftir ákveðnum reglum hvar slíkar plöntur eru notaðar, í hvaða tilgangi og hvenær við förum að berjast gegn þeim því það er líka þörf á að berjast gegn lúpínunni á ákveðnum svæðum þar sem hún hefur rutt sér til rúms í óþökk þeirra sem um landið fara.