Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:13:22 (6019)

2002-03-12 14:13:22# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það gerist ekki oft að starfsmenn sjúkrahúsa eða annarra heilbrigðisstofnana komi fram og ræði af hreinskilni um ástand mála á heilbrigðisstofnunum landsins. Það er ekki á nokkurn hátt vilji þeirra að auka óöryggi sjúklinga eða skaða orðstír heilbrigðisþjónustunnar og það þarf býsna mikið til að raska langlundargeði þessara stétta.

Nú hefur það hins vegar gerst að læknar á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi hafa opinberlega lýst ástandinu á sjúkrahúsinu og telja að jafnvel séu mannréttindi brotin á sjúklingum sem þar liggja, að raunveruleikinn sem birtist læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki spítalans sé sá að þjónusta við sjúka og aðstaða til aðhlynningar séu á álagstímum langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist og auki stórlega hættu á mistökum við meðferð og eftirlit sjúklinga. Því er haldið fram að starfsmönnum sé boðið upp á nöturleg vinnuskilyrði og framkvæmdastjórnin sé neydd til aðhaldsaðgerða sem bitni á öryggi og gæðum þjónustunnar. Þetta eru stór orð sem fallið hafa og enn hefur enginn treyst sér til að vefengja þau, aðeins dregið úr sterkustu orðunum.

Virðulegi forseti. Miðað við þær lýsingar sem fram hafa komið á ástandinu á Landspítalanum, stöðunni á heilsugæslunni, sem margoft hefur verið rædd á Alþingi, biðlistum aldraðra eftir plássum á hjúkrunar- og dvalarheimilum og stöðu heilbrigðismála úti á landsbyggðinni, nýlegar niðurstöður nefndar á áformum byggingarframkvæmda sem kosta tugi milljarða kr. er full ástæða til, áður en Alþingi lýkur störfum á þessu þingi, að heilbrrh. flytji okkur skýrslu um stöðu heilbrigðismála og framtíðarsýn í þeim. Þeirri kröfu Samfylkingarinnar hér með komið á framfæri. Umræðan snýst ekki um traust okkar á starfandi heilbrigðisstéttum. Hún snýst um vinnubrögð stjórnvalda og stefnu þeirra í þessum mikilvæga málaflokki.