Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:06:21 (6117)

2002-03-13 14:06:21# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Möller tímabærar fyrirspurnir og sömuleiðis hæstv. forsrh. fyrir hreinskilin svör, þrátt fyrir allt.

Ég vil á hinn bóginn ganga eftir því við hann sem forsrh. og oddvita ríkisstjórnarinnar hvort hann muni hafa frumkvæði að því að láta hendur standa fram úr ermum og setja í gang aðgerðaáætlun innan framkvæmdarvaldsins í þessa veruna þannig að ekki blasi bara við landsbyggðinni svikin loforð og tilbúnar væntingar sem ekki ganga eftir í þessum efnum. Ég held að reynslan sé sár. En það er ekki of seint að snúa við blaðinu og gera veruleika úr öllum þeim loforðum sem ausið var yfir landsbyggðina á sínum tíma.

Ég vil líka vekja athygli á því að í byggðaáætlun kveður enn við sama tóninn. Gefin eru vilyrði og búnar til væntingar. Því árétta ég þá spurningu mína til hæstv. forsrh. hvort til greina komi að sett verði í gang aðgerðaáætlun sem fylgt verði til hlítar.