Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:01:53 (6149)

2002-03-13 15:01:53# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. ráðherra eins og ég skildi hana áðan er það niðurstaða nefndarinnar að rúman milljarð eða 1,2 milljarða kr. þurfi til þess að ljúka brýnum verkefnum og þar af séu í kringum 230--240 millj. kr. sem séu mjög brýn verkefni.

Á síðasta ári fóru um 80 millj. kr. í nýja þrífösun og á þessu ári reiknast mér til að rétt rúmar 100 millj. kr. eigi að fara til þessa verkefnis. Ef haldið er áfram á sömu braut erum við a.m.k. 15--20 ár að ljúka þessum brýnu verkefnum samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar. En allt í allt fóru samt til þessara verkefna á síðasta ári 205 millj. kr., 280 millj. kr. núna, en þær eru notaðar í önnur heldur en algerlega ný þrífasaverkefni.