Úrbætur í fjarskiptamálum á Norðausturlandi

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:45:17 (6314)

2002-03-20 14:45:17# 127. lþ. 101.5 fundur 498. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum á Norðausturlandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég verð að segja að þau ollu mér sumpart vonbrigðum. Ég hefði vonast til að hér hefði verið hægt að flytja þær gleðifréttir að nú yrði ráðist í þessar úrbætur á sumri komanda. Það er ekki stærra mál en svo að koma þessu í lag á þessu svæði, kostar kannski 30--40 millj. eða svo.

Ég ítreka að þarna er ekki um viðunandi ástand að ræða. Flutningsgeta kerfisins til Kópaskers er fullnýtt. Þar er að hluta til notast við mjög gömul sambönd sem eru ótrygg, og hvað Raufarhöfn snertir er um allsendis ófullnægjandi öryggi að ræða, að hafa þessa einu örbylgjutengingu. Þar er verið að reyna að byggja upp fjarvinnslu og reyndar hafa verið uppi hugmyndir um að standa sameiginlega að fjarvinnsluverkefnum á báðum stöðunum. Til þess þarf betra samband en er til staðar. Þannig er ekki alltaf rétt sem menn segja, herra forseti, að bara skorti á verkefnin. Þau vantar þó sannarlega, og stjórnvöldum er til skammar hvernig það hefur gengið. En sums staðar vantar líka undirstöðurnar, sjálft fjarskiptakerfið, æðakerfið.

Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ráðherra að farið verði yfir það á nýjan leik. Ég skora á hæstv. ráðherra að láta Landssímann í málið. Eru ekki möguleikar á að ráðast í þessar úrbætur í sumar eða a.m.k. tímasetja þær þannig að það verði í allra síðasta lagi strax í byrjun árs 2003 eða þær unnar á því ári? Ég tel ekki ásættanlegt að draga þetta lengur. Ætli stjórnvöld sér að standa við stóru orðin og þær áætlanir sem eiga að heita í gangi um úrbætur í þessum efnum sé ég ekki annað en þetta þurfi hvort sem er að koma. Ég vísa til stefnumótunar um fjarskipti og upplýsingasamfélag. Hér þarf að gera betur, herra forseti.