Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:28:28 (6379)

2002-03-21 12:28:28# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hægt væri að sýna það bæði í ræðum á Alþingi, í Alþingistíðindum og eins í greinum, að ýmsir fulltrúar Vinstri grænna hafa fjallað afskaplega, ég vil segja, merkilega um álver sem vinnustað, hvort það er stefna flokksins eða þeirra sem fylgja þessum flokki... (SJS: Nefna dæmi.) Ég skal láta hv. þm., formann flokksins, fá slík dæmi og nóg er af þeim.

Hér höfum við m.a. oft heyrt úr þessum ræðustól orðin nauðhyggja stjórnvalda, af því að stjórnvöld hafa verið í samningaviðræðum um þennan mikla kost. Ég tel að það sé nauðhyggja að vilja ekki beisla þessa náttúruauðlind sem vatnið er.

Ég benti einnig á að mér finnst, í ljósi þeirrar umræðu sem fram fer hér á Alþingi, ástæða til að fagna því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á Akranesi skuli taka undir og sjá sóknarfærin í stóriðju vegna þess að ég hef ekki heyrt það á Alþingi að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sjái almennt sóknarfæri í stóriðju. (Gripið fram í.)

En mig langar til að spyrja hv. þm. vegna þess að hv. þm. segir að hér sé of mikil stóriðja, hún sé of stór og hún þurfi að vera aðeins minni: Hvar vill hv. þm. þá draga mörkin? Hversu stór má stóriðja vera til að hv. þm. og flokkur hennar telji hana viðunandi?