Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:35:25 (6383)

2002-03-21 12:35:25# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:35]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur heldur ekki á óvart að ýmislegt af því sem kom fram í ræðu minni skuli vera rangt að mati hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna þess að við höfum aðra afstöðu til þess og þarf ekki annað en rifja upp ýmis orð sem hv. þm. hefur viðhaft um álver og virkjanir bæði í fjölmiðlum og í ræðustól. Þetta er því kannski spurning um ólíkt gildismat okkar.

Auðvitað er óvissa um framtíðina. En ég vil segja um orkuverðið, það er í sögulegu lágmarki. Við höfum hins vegar fengið álit frá erlendum sérfræðingum í álheiminum. Þeir hafa skoðað álverðið yfir langan tíma og ljóst er að álverð sveiflast alltaf. Í áratugi hafa ávallt verið sveiflur í álverði. Þessir sérfræðingar, færustu sérfræðingar í heimi spá því að álverð muni lækka að meðaltali um 0,4%. Það er þeirra mat, óháðra sérfræðinga í álbransanum í heiminum. Í forsendum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir þessu og jafnframt er tekið mið af öllum þessum sveiflum en gert er ráð fyrir að álverð í heiminum fari lækkandi um 0,4%.

Það er rétt að samruni er í álbransanum eins og annars staðar en þá er líka vert að hafa það í huga sem ég vék að áðan að möguleikar á að komast í fallvötn eru afskaplega takmarkaðir. Menn geta farið til Suður-Ameríku og Afríku og gera það í einhverjum mæli en menn eru ekki bara að skoða vatnið. Menn eru líka að skoða pólitískan stöðugleika. Ný álver hafa verið að rísa í Noregi og í Kanada, í Mósambík og Ástralíu en menn leita ekki síst að álverum sem geta notað rafmagn framleitt með fallvötnum í stað kola og olíu.