Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:17:31 (6721)

2002-03-26 15:17:31# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, VE
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að rétt í upphafi máls míns að færa hæstv. utanrrh. þakkir fyrir störf hans og utanríkisþjónustunnar á liðnu ári frá því að síðasta skýrsla var sett fram og þessi mál voru rædd hér síðast.

Það er alltaf mikilvægt viðfangsefni fyrir þjóð eins og Íslendinga, svo fámenn sem hún er, hvernig hún á að halda á sínum spilum á alþjóðlegum vettvangi. Við Íslendingar stefnum að því að vera þjóð sem vill bjóða þegnum sínum upp á lífskjör í fremstu röð, vera meðal allra efnuðustu þjóða í heiminum og augljóst er að því markmiði náum við ekki nema með margvíslegum samskiptum og samvinnu við aðrar þjóðir. Þess vegna er utanríkisþjónustan sem slík og starf hennar og starf utanrríkisráðherrans afar mikilvægt. Við viljum vera með þar sem ákvarðanir eru teknar. Við viljum sýna íslenska flaggið í þeim stofnunum þar sem ákvarðanir eru teknar um margvísleg málefni sem okkur skipta. Þess vegna má segja að sjálfstæði þjóðarinnar hafi í för með sér ákveðinn kostnað hvað þetta snertir. Íslenska flaggið er ekki ókeypis heldur kostar það þetta starf. Ég verð að segja að það er mín skoðun að ég tel að á undanförnum missirum hafi þetta starf utanríkisþjónustunnar tekist með mjög miklum ágætum. Ég tel þess vegna mjög eðlilegt að hæstv. utanrrh. séu færðar hér þakkir fyrir þau störf.

Utanríkisþjónustan hefur verið í mikilli þróun á undanförnum árum. Við höfum opnað sendiráð á nýjum slóðum, í Japan og í Kína fyrir nokkrum árum, í Kanada og víðar eins og hjá Evrópuráðinu í Vínarborg og ég tel að þörf hafi verið á þessu öllu saman. Ég tel að á næstunni beri að huga að því hvort við þurfum ekki að efla stöðu okkar í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni og Ítalíu þar sem eru tvær af öflugustu þjóðum Evrópusambandsins og það eru þjóðir sem við þurfum mikið að leita til og hafa mikil samskipti við. Ég tel líka að við þurfum að spá í að opna sendiráð í löndum eins og Póllandi þar sem er fjölmenn þjóð, jafnfjölmenn og Spánverjar, og er að koma inn í Evrópusambandið, þjóð sem á eftir að skipta okkur miklu máli.

Ef við lítum á þýðingu Pólverja þá er ekkert sem segir að Pólverjar geti ekki verið jafnþýðingarmiklir í utanríkissamskiptum okkar og Spánverjar, bæði viðskiptalega og pólitískt. Pólverjar munu á næstu árum verða ein af þýðingarmestu þjóðum Evrópusambandsins og þess vegna tel ég að mjög þurfi að huga að þessu.

Eitt af því mikilvægasta sem utanríkisþjónustan gerir er að sjálfsögðu að styrkja stöðu okkar Íslendinga í samningum og samskiptum við aðrar þjóðir, sérstaklega á sviði viðskipta. Ef við lítum á þýðingu þess starfs er ágætt að gera það í ljósi þess að hagvöxtur á Íslandi á næstu árum mun mjög verulega byggjast á því hvaða árangri íslensk fyrirtæki geta náð á erlendum mörkuðum. Með öðrum orðum, við sjáum að íslenskt hagkerfi hefur orðið sífellt alþjóðavæddara og menn þurfa að halda áfram að þróast á þeirri braut á næstu árum ef við eigum að geta haldið uppi lífskjörum okkar hér í þessu landi.

Það er mjög athyglisvert að skoða að í upphafi síðasta áratugar eða á árunum 1991 og 1992 var hlutfall útflutnings og innflutnings milli 31 og 32%. Á þessu ári er miðað við að þessi hlutföll verði yfir 40%. Þetta lýsir því hvað íslenskt atvinnulíf hefur þróast í átt til aukinnar alþjóðavæðingar á þessum árum.

Ef við horfum fram í tímann þá held ég að það liggi nokkuð ljóst fyrir að íslenskt atvinnulíf þarf að verða enn þá alþjóðavæddara og þar sem við erum að tala um 40% í dag muni það að verða 50% eftir segjum tíu ár. Ég held að það hljóti að þurfa að vera stefna okkar Íslendinga að ná því marki að hlutfall utanríkisviðskipta aukist þannig að þetta verði 50% af landsframleiðslu eftir tíu ár. Það þýðir feikilega miklar breytingar hérna innan lands. Það þýðir líka að utanríkisþjónustan þarf að vera mjög vakandi á erlendum mörkuðum og í erlendum stofnunum þannig að ekkert sem er að gerast erlendis hindri okkur í því að ná þessum árangri. Við þurfum líka að líta inn á við og gæta að því að leggja ekki stein í götu uppbyggingar á útflutningstekjum eða leggja ekki stein í götu tækifæra fyrir aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífsins. Ýmislegt mætti segja um það sem þarf að gera hér innan lands til þess að ná þessu en ég tel að þar sem þessi umræða snýst fyrst og fremst um utanríkismál sé rétt að geyma það.

Farið hefur fram mikil umræða um Evrópusambandið og tengsl okkar við það. Gerð er mjög rækileg grein fyrir þessum tengslum og stöðu okkar í skýrslu ráðherrans og í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um það sem þar stendur. Þær breytingar sem ég álít að skipti mestu máli hjá Evrópusambandinu á næstu árum eru að sjálfsögðu stækkun sambandsins sem stækkar innri markað þess og skapar fyrir okkur mikil tækifæri. Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur ef löndin í Mið- og Austur-Evrópu geta náð sér á strik. Ef kaupgeta þar eykst þá skapar það að sjálfsögðu tækifæri fyrir útflutningsfyrirtæki okkar og síðast en ekki síst hafa íslensk fyrirtæki verið að sækja inn í þessi lönd í alls konar samstarfi í uppbyggingu á atvinnustarfsemi --- ekki síst það --- og fjárfestingar okkar Íslendinga og uppbygging á atvinnulífi í þessum löndum er ákveðið dæmi um hvað íslensk fyrirtæki geta gert ef menn eru ákveðnir í að standa sig.

Evrópusambandið er að sjálfsögðu á fleygiferð, ekki bara í útvíkkun heldur hefur það farið inn á margvísleg ný svið á undanförnum árum. Sumum höfum við tengst en öðrum ekki. Eitt sem mér finnst mjög athyglisvert er sú þróun sem er að verða þar í öryggis- og varnarmálum og stofnun svokallaðs Evrópuhers. Mikið hefur verið talað um að Evrópusambandið sé efnahagslegur risi en pólitískur dvergur og í rauninni er það ekkert undrunarefni. Ef maður lítur á hvað þetta er sundurleitt hjá Evrópusambandinu þá má nefna það að nokkur Evrópusambandsríki eru ekki í NATO. Við getum nefnt Írland, Svíþjóð, Finnland og Austurríki. En nokkur Evrópuríki utan Evrópusambandsins eru með í NATO, t.d. Ísland, Noregur, Tyrkland, Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Síðan þegar þetta nýja samstarf Evrópusambandsins hefst í varnarmálum þá eru ríki eins og Danmörk og Írland ekki með en hlutlausu ríkin, sem eru Svíþjóð, Finnland og Austurríki, eru með. Evrópuherinn þarf að semja við NATO um notkun á búnaði og aðgangi að upplýsingum. Svo flækist málið enn þá meira þegar þau ríki sem eru að sækja um aðild að Evrópusambandinu, svo sem Eistland, Lettland og Litháen, hafa líka verið að sækja um inngöngu í NATO en sumum kannski ekki verið allt of vel tekið og efasemdir eru um að þessi ríki eigi heima í NATO. En þegar þessi ríki eru komin inn í Evrópusambandið fá þau sjálfkrafa rétt til þess að vera aðilar að Evrópuhernum og samstarfi Evrópuríkja í varnarmálum. Þegar allt þetta er haft í huga þá er nú eðlilegt að Evrópusambandið sé pólitískur dvergur þótt það sé efnahagslegur risi. Það er svona akademískt áhugavert að fylgjast með því hvernig þessir hlutir muni æxlast í framtíðinni. En ég tel að að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að við missum ekki fótanna í allri þessari hringiðu sem þarna er orðin og að hagsmunir okkar í varnar- og öryggismálum verði tryggðir með tilliti til þessarar þróunar, en hún er vægast sagt afar flókin.

Menn hafa oft verið að ræða um hvaða mál innan Evrópusambandsins komi í veg fyrir að Íslendingar vilji sækja þar um aðild og hvaða mál geri það að verkum að Evrópusambandið gæti orðið aðlaðandi kostur fyrir okkur Íslendinga. Við höfum séð í skoðanakönnunum að mikið fylgi er við það að Ísland gangi í Evrópusambandið og að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu o.s.frv. Því þarf ekki að lýsa hér í mörgum orðum. Það sem mér finnst athyglisvert í þessu er að skoða á hvaða forsendum hinar ýmsu þjóðir hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu eða gengið í Evrópusambandið og hvernig það hefur haft áhrif á almennan stuðning við aðildina og þróun Evrópusambandsins í viðkomandi löndum.

Ef við lítum t.d. á lönd eins og Írland, Bretland og Danmörku, má segja að þessi lönd hafi gengið í Evrópusambandið fyrst og fremst á efnahagslegum forsendum. Ef við lítum á lönd eins og Austurríki, Finnland og Svíþjóð þá blönduðust þar mikið inn í pólitískar forsendur og viðleitni til þess að tryggja stöðu þessara landa í utanríkis- og varnarmálum. Sama má segja um löndin í Mið- og Austur-Evrópu sem eru að ganga inn. Þar skiptir miklu máli að verið er að reyna að styrkja stöðu þessara landa pólitískt, ekki bara efnahagslega.

Ef við lítum síðan á þau lönd sem eru núna í Evrópusambandinu og hvaða lönd eru kannski virkust eða viljugust til þess að standa í allri þessari samvinnu og hvaða lönd er minnst viljug þá virðist vera svo að þau lönd sem gengu inn í Evrópusambandið á efnahagslegum forsendum --- ég er að tala um lönd eins og Stóra-Bretland, Írland og Danmörku --- að þar séu þjóðirnir minnst viljugar til þess að dýpka samstarfið innan Evrópusambandsins.

Við getum nefnt Noreg þar sem menn voru að semja um aðild í tvígang, en það féll í þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang. Ég hygg að ef menn fara að skoða það þá hafi það skipt miklu máli að Noregur þurfti í sjálfu sér ekki að ganga í Evrópusambandið á þessum pólitísku forsendum þar sem landið eða þjóðin er aðili að NATO.

Ef við litum á þetta frá sjónarhóli Íslands þá erum við aðili að NATO og því yrði afstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu og aðild að því, ef sú spurning er uppi, kannski meira spurning um efnahagsleg mál heldur en pólitísk mál. Því mundi ég reikna með að mjög erfitt yrði að sannfæra þjóðina um þetta þegar til ætti að taka og menn fara að gera hlutina upp algerlega á efnahagslegum forsendum. Þetta vildi ég koma með inn í umræðuna sem vangaveltur um þessa stöðu.

Það sem ég hygg að muni í raun kannski breyta þessari stöðu á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu þannig að menn þurfi að fara að reikna hlutina upp á nýtt er að ef Bretarnir og Svíarnir tækju upp evruna þá tel ég að alla vega þurfi að reikna það dæmi upp á nýtt og það gæti breytt þeim efnahagslegu forsendum sem við höfum verið að skoða þessi mál út frá.

Þó er einn misskilningur í sambandi við evruna mjög algengur og útbreiddur hér. Það er að aðild að evrunni lækki í sjálfu sér vexti á Íslandi. Málið er að til þess að komast inn í evruna þá þurfa vextirnir fyrst að lækka og vera búnir að lækka áður en við getum orðið aðilar að evrunni. Eitt af skilyrðunum sem þarf að uppfylla fyrir aðild að evrunni er að vextirnir eða vaxtamunurinn á milli íslensku krónunnar og evrunnar sé mjög lítill.

Virðulegi forseti. Utanríkismál eru mjög víðtækur og víðfeðmur málaflokkur. Ég hef nú rétt tæpt á nokkrum atriðum sem mér hafa þótt áhugaverð í sambandi við þetta mál og læt hér staðar numið.