Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:33:09 (6722)

2002-03-26 15:33:09# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. gera helst til lítið úr þeim ávinningi sem Íslendingar mundu hafa af inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar hvað varðar vaxtakostnað, en gott og vel. Er ekki hv. þm. sammála mér um að upptaka evrunnar mundi líka verða til að lækka kostnað fyrirtækja og verða til að gera allt verðlagseftirlit auðveldara af hálfu neytenda sjálfra vegna þess að verðlag og verðlagssamanburður yrði miklu auðveldari og gagnsærri? Þar með mundi upptaka evrunnar væntanlega leiða til þess að verðbólgan yrði minni vegna aukinnar samkeppni. Kaupmáttur neytenda yrði þar með meiri. Þannig má segja að nokkuð sterkar efnahagslegar forsendur séu af hálfu Íslendinga fyrir því að ganga í Evrópusambandið til að taka upp evruna. Er hv. þm. sammála mér um það?

Í annan stað lýsti hann því ákaflega vel í máli sínu hvernig veður gætu skipast í lofti á Evrópuhimni, t.d. að því er varðar upptöku evru í þeim þremur ríkjum sem menn hafa stundum rætt, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Er hann þeirrar skoðunar að ef þessi ríki tækju upp evruna þá yrði óhjákvæmilegt fyrir Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu til þess að taka upp evru líka? Er hann sammála því að nauðsynlegt sé, til þess að samkeppnishæfni, og samkeppnisforskot að ýmsu leyti, íslensks atvinnulífs haldist?