Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 23:19:44 (6852)

2002-04-03 23:19:44# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[23:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég leyni því ekki að mér finnst hún um margt kúnstug, þessi 2. umr. eða öllu heldur önnur lota 2. umr., um virkjunarheimild vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hún hefur tekið ýmsar þær sveigjur og beygjur sem ég átti satt að segja ekki von á. Einkum og sér í lagi hef ég staldrað við og lagt við hlustir þegar þeir sem hvað lengst hafa talað og mest við þessa seinni lotu 2. umr., málsvarar Vinstri grænna, hafa mætt í pontu og farið mikinn um hin hagrænu gildi, hin fjölþættu atriði þessa máls, og fundið þar málinu allt til foráttu satt að segja.

Mig langar í byrjun til að fjalla um ræðu síðasta hv. þm. Hv. þm. Þuríður Backman var að ljúka máli sínu, og hún var eiginlega talandi dæmi um þær þversagnir sem finna má í tali vinstri grænna í þessu máli öllu. Hún rakti það lið fyrir lið, og lauk raunar ræðu sinni á því að vekja á því athygli að ekki væri það endilega bundið í lagatexta að sú orka sem Kárahnjúkavirkjun framleiddi mundi renna til austurs, þ.e. í Reyðarfjörð til stóriðju þar á bæ, heldur gæti hún þess vegna verið flutt suður um heiðar. Fyrr í ræðu sinni hafði hv. þm. hins vegar rakið það mjög skilmerkilega, að því er henni fannst, hversu vond sending það væri fyrir Austfirðinga að fá eitt stykki álverksmiðju með öllum þeim meintu göllum sem hún tiltók, verksmiðjan væri karlavinnustaður, óþrifavinnustaður, einhæfur vinnustaður, byggðaröskun í fjórðungnum o.s.frv. Maður veltir fyrir sér hvorar áhyggjur hennar vegi þyngra, nefnilega annars vegar þær að orkan verði flutt suður ellegar hin stóra hættan að orkan verði flutt í Reyðarfjörðinn. Aðrar hvorar áhyggjurnar hljóta að vega þyngra í huga hennar því að tæpast getur hvort tveggja átt við.

Nákvæmlega það sama á við, herra forseti, þegar málsvarar Vinstri grænna koma hér hver á fætur öðrum og hefja mál sitt á því yfirleitt að vera með yfirlýsingar, mjög breiðar í þá veruna að þeir séu á móti þessu máli og hafi verið það allt frá byrjun. Það þarf svo sem ekki vitnanna við því að það hefur auðvitað margsinnis verið hér á blað sett af þeirra hálfu og í ræðum þeirra í þingtíðindum. Eitt þessara dæma má finna í greinargerð með afskaplega undarlegri tillögu vinstri grænna til þál. þar sem þeir lögðu til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls en í greinargerð með þeirri till. til þál. sjá þeir sérstaka ástæðu til að taka af öll tvímæli með það að flutningsmenn, sem eru allir þingmenn Vinstri grænna, sex talsins, væru andvígir stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar og byggingu Kárahnjúkavirkjunar, og segja í greinargerð að þeir hafi ítrekað gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Það fer með öðrum orðum ekkert á milli mála, þeir eru á móti þessari virkjun af umhverfisástæðum, og ég held að ég fari algerlega rétt með í þeim efnum.

Þá skulum við setja semíkommu og spyrja okkur hvers vegna þeir, fremstir allra, telji þá ástæðu til að setja hér á langar ræður, bláar ræður, um arðsemi og hagkvæmni. Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt langa og um margt ítarlega ræðu fyrr í dag og rekur nú höfuðið inn um gættina vil ég spyrja hann þráðbeint hvort mál séu þannig vaxin hjá þingflokki hans að ef arðsemi væri meiri, raforkuverð yrði hærra, efnahagslegar mótvægisaðgerðir væru fyrirliggjandi og klárar og aðrir þeir þættir af hinum hagræna toga sem hann varði löngum tíma í væru allir með þeim hætti að málið gerði sig --- dygði það til þess að hv. þm. styddi málið? Hv. þm. hristir höfuðið.

Herra forseti. Þarf þá frekari vitnanna við? Ég hef auðvitað afskaplega gaman af því að heyra akademískar vangaveltur frá fólki sem veit eitt og annað um lífið og tilveruna. En það er auðvitað ákaflega létt í vasa, herra forseti, og verður að segja þá hluti eins og þeir eru. Þegar menn, sem hafa myndað sér skoðun fyrir fram og lýst því yfir afdráttarlaust að þeir leggist gegn málinu undir öllum kringumstæðum af umhverfislegum ástæðum, geta verið hinir hagfræðilegu sérfræðingar og lagt hlutlægt mat á hvað er rétt og hvað rangt í þeim efnum ... (Gripið fram í: Þetta er leiðrétt.) Herra forseti, fyrirgefðu mér en ég undrast dálítið þessa nálgun hv. þingmanna ... (Gripið fram í: Þið eruð svolítið ill ...) Fyrirgefðu mér, herra forseti, þó að ég taki ekki algerlega mark á nálgun þessara manna. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta truflar mig ekki neitt, herra forseti, látum þau rasa hér um ráð fram eins og þau hafa gert í allan dag, þetta truflar mig ekki nokkurn skapaðan hlut.

(Forseti (ÍGP): Þetta truflar reyndar forseta.)

Já, ég hef hins vegar mikla samúð með forseta í þessum efnum og tek því leiðbeiningum hans.

En, herra forseti, undrist það hver maður þó að ég sé eilítið ruglaður í ríminu þegar kemur að þessari nálgun mála. Ég verð að halda áfram og spinna þennan þráð öllu lengra. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er auðvitað ekki að taka á neinn hátt réttinn af hv. þm. Vinstri grænna til að hafa skoðanir á þessum málum þó að ég ítreki það og undirstriki að mér finnst hlutlægni þeirra mjög í efa dregin þegar þeir hafa fyrir fram lýst yfir afdráttarlausri skoðun og andstöðu við þetta mál á grundvelli umhverfisverndar. Ég efast hins vegar um að þeir séu kannski manna fremstir og helstir til þess að segja okkur hinum hvar hinum hagrænu gildum er best fyrir komið. Virði menn mér það til vorkunnar.

Herra forseti. Að svo skuli það vera hv. þm., virðulegur þingmaður Ögmundur Jónasson, sem mér finnst um margt vera --- hann er auðvitað býsna vel máli farinn og flytur mál sitt af miklum þunga gjarnan, hann hefur talið sig þurfa að fara fremstur í flokki þeirra sem ráðast hér --- sumpart með réttu --- að hæstv. iðnrh. með þeim spjótum að hún hafi ekki sagt honum nægilega fljótt frá því að ekkert yrði af álversframkvæmdum fyrir austan. Einhver sem hefði heyrt ávæning af þessari umræðu í gegnum tíðina, í gegnum vikurnar, mánuðina og missirin, hefði haldið að það væri hv. þingmanni mjög þóknanlegt að svona skyldi enda. Auðvitað skín í gegnum þetta allt að hv. þingmenn Vinstri grænna eru eins og púkinn á fjósbitanum og hljóta að fagna því að það eru minnkandi líkur á því --- ég held að um það sé engum blöðum að fletta --- að af þessu verði. A.m.k. er algjörlega kýrskýrt og fyrirliggjandi að á þessu verður umtalsverður frestur og það verður tæplega af álveri á kjörtímabilinu. Að öllum líkindum kemur ekki einu sinni til neinnar þeirrar ákvörðunar sem ekki verður hægt að snúa af braut með.

Ég held að þetta rugli ekki bara mig í ríminu, herra forseti, ég held að þetta rugli fleiri eilítið í ríminu. Er þá að undra að ég hafi velt því upp í umræðum um þessi mál fyrir einhverjum vikum hvort vinstri grænir væru ekki algjörlega samstiga í þessu máli, hvort það væru einhverjar innantökur í þeirra herbúðum þegar kæmi að hinni grænu verndarstefnu, hvort nánast að segja hinn blái litur hefði þarna eitthvað að segja líka. Ég gæti líka sagt hinn rauði með vísan til fortíðar því að ég vil rifja það upp, herra forseti, að það voru hinir róttæku flokkar jafnaðarmanna og sósíalista sem sáu fyrir sér í árdaga að efla mætti þrótt og kjör þeirra sem höllum fæti standa með því að ríkisvaldið beitti sér fyrir því með beinum hætti stundum, og óbeinum hætti oftar, að skapa ný atvinnutækifæri fyrir vinnandi fólk í þessu landi. Og minn flokkur, Alþýðuflokkurinn, og við jafnaðarmenn tókum gjarnan höndum saman við sósíalista forðum daga um þau efni.

[23:30]

Mér býður í grun, herra forseti, og segi það alveg af því ég meina það, að kannski eru það þessir fornu straumar, hinn rauði litur sem þarna smellur í grænu slikjuna, grænu kápuna, og vill vera með. Það er gott.

Herra forseti. Þetta var aðeins um málatilbúnað vinstri grænna. Þeir hafa líka lýst því yfir að þeir telji ekkert liggja á málinu og að það megi vel bíða. Að sumu leyti get ég tekið undir, herra forseti, að það liggur ekki lífið á að við ræðum þetta mál hér undir miðaftan og ræðum hér í myrkri, (Gripið fram í: Miðnætti.) --- undir miðnætti vildi ég sagt hafa. Við þurfum ekki endilega að ræða þetta hér fram eftir allri nóttu. Það er auðvitað ljóst að við höfum ráðrúm og tíma. Mér er hins vegar spurn: Hverju breytir það út af fyrir sig hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna hvort þetta mál verður afgreitt hér á morgun, í næstu viku eða þarnæstu viku? Því hefur gjarnan verið haldið hér til haga að þá verði rammaáætlunin komin til skjalanna, hún verði orðin sýnileg. Auðvitað er alltaf eitthvað nýtt fram undan.

Ég vil nefna, herra forseti, sem mína skoðun, og það er ekki bein gagnrýni á vinstri græna sérstaklega heldur ýmsa aðra hv. þm. og málsmetandi menn sem hafa lagt orð til þessarar umræðu, að mér finnst stundum að hjá okkur stjórnmálamönnum beri á hálfgerðri von um að einhverjir aðrir taki ákvarðanir fyrir okkur og einhver rammaáætlun sem embættismenn setja saman geri það að verkum að við þurfum ekkert að taka neina ákvörðun, einhverjir aðrir verði búnir að því fyrir okkur.

Nákvæmlega í þessa veru var hér umræðan um umhverfismatið, sem er sannarlega nýtt af nálinni og um margt til fyrirmyndar. Þar eru ný vinnubrögð sem ég kann afskaplega vel við. En stundum töluðu menn þannig að um leið og umhverfismatið væri komið í góðan gír og eftir því væri unnið þá þyrftum við hv. þm. ekki að taka afstöðu til mála mikið lengur, þá væri búið að því fyrir okkur.

Herra forseti. Þannig er þetta auðvitað ekki. Það væri afskaplega ólýðræðislegt í alla staði ef við hv. þm. ætluðum meðvitað eða ómeðvitað að framvísa ábyrgð á stórákvörðunum af þeim toga sem hér um ræðir til embættismanna á framkvæmdarsviðinu, undirmanna ráðherra. Ég er a.m.k. ekki þeirrar tegundar, herra forseti, að vilja hlaupast undan í þeim efnum, hvort heldur ég er í stjórnarandstöðu ellegar meðal stjórnarliða. Ég vil klárlega undirstrika að það er ekki lýðræðisleg nálgun viðfangsefna, hvort sem í hlut á þetta mál hér eða önnur. Það er auðvitað ekki mikill mannsbragur á því, herra forseti, þegar menn eru með undanhald af þessum toga gagnvart verkefnum sem við okkur blasa og við erum kjörin til að taka á, ekki bara til að tala um, heldur til þess að greiða atkvæði um og taka um ákvörðun.

Auðvitað er ég meðvitaður um það, herra forseti. Því miður er, mér liggur við að segja, stundum eins konar gervilýðræði í þessum sal. Framkvæmdarvaldið, ráðherravaldið er svo mikið að hópur stjórnarliða lætur að vilja ráðherra umhugsunarlítið og stundum, liggur mér við að segja, umhugsunarlaust. Hið virka lýðræði fær auðvitað ekki alltaf notið sín. Það breytir því hins vegar ekki að hv. þm. geta ekki keypt sér fjarvistarsönnun frá því þegar þeim býður svo við að horfa, eins og mér finnst stundum vera, hvort sem þau tól eða tæki sem eiga að vera okkur til aðstoðar, leiðbeiningar og upplýsingar heita umhverfismat, rammaáætlun eða eitthvað annað. Nei, herra forseti, þetta eru ákvarðanir sem við hljótum að þurfa að taka afstöðu til, stundum óbeint í opinberri umræðu og stundum með því að taka ákvörðun í atkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi. Þannig er það núna.

Það er fleira, herra forseti, sem er kúnstugt í þessari umræðu og vekur sérstaka athygli í þessari seinni lotu 2. umr., þ.e. hvernig stærsti flokkur þjóðarinnar hefur farið í felur, gjörsamlega og alfarið. Hann hefur ekki komið að þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í allan dag. Hann kom hér rétt aðeins að í morgun með innleggi hv. 2. þm. Austurl. sem hefur síðan ekki látið sjá sig hér í salnum. Manni væri skapi næst að halda að hér væri á ferðinni einkamál Framsfl. í þessum efnum. En auðvitað er skýringin nærtæk. Hún liggur auðvitað í þeim umræðum sem við höfum fylgst með, þeirri opinberu umræðu sem við höfum fylgst með allt frá því kengur hljóp í þessi mál gagnvart Norsk Hydro og ásakanir fóru í gang, einkanlega í Morgunblaðinu, þess efnis að hæstv. iðnrh. og Framsfl. hefðu ekki staðið sig í stykkinu.

Í fyrsta lagi segja menn að þeim hafi mistekist að halda góðu sambandi við þá Norðurálsmenn, Kenneth Peterson, en í raun var einnig verið að senda þau skilaboð til þjóðarinnar frá samstarfsflokknum í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokknum, til samstarfsflokksins, Framsóknarflokksins, flokks hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar, 1. þm. Austurl., að ég tali nú ekki um hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur, að þar hefði Framsfl. ekki staðið vaktina sem skyldi.

Herra forseti. Það er eitt atriði í þessu samhengi sem mig langaði að inna hæstv. iðnrh. eftir. Ég bið forseta um að leita hann uppi og biðja hann að vera viðstaddan þessa umræðu þannig að ég geti beint þeirri fyrirspurn beint til hans horft á hann á sama tíma.

Þetta nýjasta mál í samskiptum stjórnarflokkanna hefur auðvitað leitt í ljós að það er hlaupin uppstytta í þetta samstarf, í fleiri en einu tilliti. Það er ekki bara í þessum virkjanamálum sem í ljós hefur komið að hann er orðinn þunnur þrettándinn á stjórnarheimilinu og að lítið þarf til að upp úr sjóði. Við tókum auðvitað eftir því, allir þingmenn hér, þegar hin stóra frétt birtist og Morgunblaðið gaf til kynna, fyrst í Reykjavíkurbréfi og í leiðara sömu helgi, að Framsfl. hefði ekki staðið vaktina gagnvart Norðuráli, að hæstv. forsrh. tók undir þá gagnrýni í Ríkisútvarpinu. Þá var mjög spennuþrunginn dagur hér í þinginu milli stjórnarliðanna. Það fór auðvitað ekki fram hjá nokkrum manni. Því lyktaði með því að forsrh. taldi sig knúinn til að fara í sjónvarp og lýsa alveg sérstöku trausti á hæstv. iðnrh. sem hann og gerði.

Ég hef hins vegar tekið eftir því að hv. 1. þm. Norðurl. e. sá hér í umræðu þann 14. febrúar sl. sérstaka ástæðu til að hæla hæstv. iðnrh. Valgerði Sverrisdóttur, og bar þá nýrra við, og taldi hana hafa staðið sig mjög vel í öllum samskiptum við Norsk Hydro. Hann bætti raunar við að það horfði afskaplega vel og óvenjuvel um það verkefni allt saman. Það var hæstv. forseti Alþingis, hv. 1. þm. Norðurl. e., sem lagði þessa lykkju á leið sína á þeim tíma. Hann hefur svo sem ekki sagt meira í þessa veru frá þeim tíma. Hann hefur raunar ekki sagt eitt aukatekið orð um þetta mál frá þeim tíma. Hann ætlaði reyndar að taka til máls við þessa umræðu en sagði sig frá þeim fyrirætlunum sínum og er hér ekki lengur á mælendaskrá.

Ég var einmitt að segja, herra forseti, og vildi að hæstv. ráðherra heyrði það beint, að það vekur sérstaka athygli mína, fálæti samstarfsflokksins, Sjálfstæðisflokksins, í þessari umræðu. Maður hlýtur auðvitað að velta fyrir sér hvernig á því stendur. Allt frá þeim tíma að hæstv. forsrh. bað nánast hæstv. iðnrh. afsökunar á því að hafa skammað hana í útvarpi daginn áður, fyrir að hafa ekki verið í sambandi við Kenneth Peterson, hefur hæstv. forsrh. ekki sagt eitt aukatekið orð um málið. Hann er að vísu fjarstaddur núna.

Mig langar, vegna þessarar rannsóknarblaðamennsku Morgunblaðsins og Stöðvar 2 um það efni sem hér hefur talsvert verið rætt í dag og var einkum og sér í lagi til umræðu í upphafi fundar, að inna hæstv. iðnrh. eftir því hvenær hæstv. iðnrh. upplýsti hæstv. forsrh. um að vandamál væru komin upp varðandi tímasetningar af hálfu Norsk Hydro. Hvenær var þetta mál síðan reifað í ríkisstjórn?

Mér finnst þetta skipta máli fyrir framgang málsins. Ég hef fylgst allvel með fréttum þar sem um þessi mál hefur verið rætt og þau verið reifuð en ég hef ekki tekið eftir því að menn hafi sérstaklega innt sjálfstæðismenn eftir því hvenær þeir hafi fengið upplýsingar um, hvort heldur var frá Geir Gunnlaugssyni, framkvæmdastjóra Hæfis, Þórði Friðjónssyni, eða hæstv. iðnrh. eins og eðlilegast hefði verið, um að Norsk Hydro væri komið í bakkgír. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra upplýsti um þetta. Hún hefur upplýst nákvæmlega um allar tímasetningar hér. Ég hef viljað trúa henni í þeim efnum og farið mjög rækilega yfir það. En í þessu sambandi skiptir máli, vegna þess að ég vil glöggva mig á því hvort Sjálfstfl. sé hér heils hugar stuðningsmaður þessa máls, ellegar hvort hann styðji aðra pólitík sem ég átta mig ekki á.

Herra forseti. Framsfl. hefur verið afskaplega áfram um það mál sem hér um ræðir. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið 1996 eða 1997 sem fyrst komu fram handfastar hugmyndir um að farið yrði í stóriðju, þ.e. álverksmiðju á Reyðarfirði, þá í samstarfi við Norsk Hydro. Það eru fimm ár eða þar um bil og hvort sem okkur líkar það betur eða verr er staðan sú að við erum hér á byrjunarreit. Hvernig svo sem menn velta þessum steini fram og til baka þá erum við á algjörum byrjunarreit. Hæstv. iðnrh. vill ekki ætla að svo sé en því miður er það þannig.

Ég rifja það upp að þann 13. febr. var hæstv. iðnrh. spurður um það í fyrirspurnatíma hvort hún hefði, og ríkisstjórnin raunar því ég vil líta svo á að hér sé um eitt stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar að ræða en ekki einkamál hæstv. iðnrh., hvort til væri eitthvert plan B, eitthvert varadekk sem hægt væri að grípa til ef Norsk Hydro hrykki úr skaftinu. Auðvitað höfðu margir hverjir ýmsar efasemdir um að þessu stóra norska fyrirtæki, raunar alþjóðlega fyrirtæki, væri full alvara í þessu verkefni þegar þeir fóru að draga lappirnar, þegar þeir fóru að fresta þessum ákvörðunum. Svo var í tíð forvera hæstv. iðnrh., Finns Ingólfssonar, sem leiddi auðvitað til gjörbreytingar á verkefninu öllu saman. Nú hefur komið á daginn að þær grunsemdir, þær áhyggjur, áttu því miður við rök að styðjast. Ég lýsti yfir sérstökum vonbrigðum mínum með það. Það hlægir mig hreint ekki.

[23:45]

Ég spyr hæstv. iðnrh. hvers vegna hún neiti þeirri ályktun minni og stöðumati að við séum á byrjunarreit í viðskiptum við aðra hugsanlega lysthafendur um kaup á orku til byggingar á álveri í Reyðarfirði. Það þýðir ekkert að segja mér að hugsanlega séu Norsk Hydro ekki hættir, kannski geti þriðji aðili komið inn. Það liggur ljóst fyrir að þeir valkostir sem til staðar eru eru ekki allt of margir og aðdragandi þessara mála er langur. Í fimm ár höfum við bundið okkar trúss við Norsk Hydro, í fimm ár höfum við verið í ástar/trúlofunarsambandi við þetta norska fyrirtæki og nú er þeirri sambúð lokið. Það er kannski ekki lögskilnaður en það er a.m.k skilnaður að borði og sæng, svo mikið er hægt að fullyrða.

Þetta er veruleikinn sem við okkur blasir og því árétta ég það, herra forseti, að væntanlega verður ný ríkisstjórn að afloknum næstu kosningum sem mun leiða þessi mál til lykta á einn eða annan veg og ég trúi því að sú ríkisstjórn muni geta gert það.

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að fara aðeins yfir afstöðu flokks míns í málinu. Á hann hefur verið ráðist af ýmsum í gegnum tíðina og honum borið það á brýn að hann sé flöktandi í afstöðu til þessara mála. Skoðum aðeins staðreyndir í örstuttu máli.

Ég rifja það upp að Samfylkingin var eindregið þeirrar skoðunar, allur þingflokkurinn og allir þingmenn, að aðferðafræðin í Eyjabakkamálinu, þ.e. að skjóta sér fram hjá lögformlegu umhverfismati --- við lögðum fram tillögu um að farið yrði að lögum í þeim efnum. Allir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu því atkvæði. Því miður var sú tillaga felld af stjórnarmeirihlutanum á þeim tíma.

Hins vegar skiptust menn um efnislega niðurstöðu málsins. Fjórir þingmenn greiddu atkvæði með því en 13 voru því andvígir.

Við lögðum hins vegar ævinlega og alltaf áherslu á að standa yrði rétt að verki. Og það hefur verið gert í þessu Kárahnjúkamáli. Menn getur greint á um hvort þau lög sem við höfum staðið að og varða aðferðafræðina við umhverfismat séu að öllu leyti gallalaus, um það má hafa langt mál, en það eru þau lög sem við sjálf settum okkur í þessum efnum og eftir þeim lögum ber framkvæmdarvaldinu að vinna og það hefur framkvæmdarvaldið gert. Við höfum skoðað niðurstöðu mála eftir að Skipulagsstofnun ríkisins hefur komið með ábendingar, eftir að umhvrh. samkvæmt lögum hefur farið að fjölmörgum þeim ábendingum og metið málið á efnislegum grunni þannig að það sé komið nægilega til móts við þær ábendingar sem Skipulagsstofnun ríkisins viðhafði, svonefndar mótvægisaðgerðir til þess að draga úr umhverfisspjöllum eins og kostur er. Í því ljósi hefur þingflokkur Samfylkingarinnar, raunar að tveimur þingmönnum undanskildum, lýst yfir stuðningi við málið. Það gerum við ekki endilega gagnrýnislaust að öllu leyti en við ætlum hins vegar ekki að flýja þá lýðræðislegu skyldu og þann lýðræðislega rétt okkar að taka afstöðu í málinu, því að sagan mun spyrja um það: Hvar var varst þú, hvað gerðir þú þegar þessi ákvörðun var tekin?

Ég ætla að vera á réttum stað í þeim efnum. Ég ætla ekki að vera á handahlaupum í burtu frá því máli með vísan til þess að einhvern tíma seinna komi rammaáætlun, einhvern tíma seinna kunni eitthvað annað að gerast sem geti breytt hinu eða þessu.

Herra forseti. Samfylkingin hefur því verið sjálfri sér samkvæm í þessu máli og hún hefur gert meira. Okkur er auðvitað ljóst að um málið hafa verið talsvert deildar meiningar. Sem betur fer held ég að úr helsta tilfinningahitanum hafi heldur dregið. Sumir segja að ástæðan sé einfaldlega sú að það kreppi að í efnahagskerfinu okkar, og það er að sönnu rétt, og að almenningur, vinnandi fólk í landinu, alþýða landsins, sjái það fyrir sér að ekki eru mörg járn í eldinum, ekki séu margir möguleikar til aukins hagvaxtar, aukinnar framleiðslu í þjóðarbúinu og finni sig kannski ekki alveg í því að sjá nýja peninga, nýja fjármuni, hærri laun í nýjum jarðgöngum eða í einhverjum meintum auknum ferðamannastraumi, heldur í handfastri framleiðslu sem flutt er til útlanda.

Við Íslendingar erum nefnilega ekkert afskapleg rík þjóð í öllu tilliti. Hér er enga olíu að finna, við lifum á fiski og við höfum talað um það árum og áratugum saman, ég hygg allflestir hér inni, að verðmæti okkar liggi í landinu og þar með að nýta landið okkar og það afl sem í vatninu felst. Þess vegna held ég að um þetta sé að nást meiri sátt.

En við viljum ganga enn þá lengra og við höfum skilning á því að hér er vissulega verið að færa ákveðna fórn, óafturkræfa fórn, með því að setja ósnortin víðerni undir vatn. Því gerum við það samhliða að leggja hér fram tillögu þar sem við segjum: Hingað og ekki lengra, hér drögum við línuna þegar kemur að svæðinu norðan Vatnajökuls, og erum alveg skýr og afdráttarlaus og samstiga í þeim efnum. Þá er ég að tala um þjóðgarðshugmynd þá sem hér hefur verið hreyft og flutt í formi þáltill. af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar. Með því viljum við reyna að spila saman sjónarmið verndunarsinna og þeirra sem nýta vilja náttúruna til framleiðslu, til útflutningsframleiðslu.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala svona lengi. Ég gæti svo sem rætt talsvert um þann veruleika sveitarfélaga sem birtist þeim þegar stórfyrirtæki á borð við álver mætir í bæinn. Ég er nefnilega alinn upp í einu slíku sveitarfélagi, Hafnarfirði, þegar fyrsta stóriðjan hér á landi reis á sjöunda áratugnum. Ég var nú ekki mjög gamall en man samt þá umræðu og hef flett henni upp síðar hvernig sú umræða gekk fyrir sig á hinu háa Alþingi og hverjir það voru sem þá lögðust eindregið gegn þeirri uppbyggingu. Það voru flokkssystkini iðnrh., Framsóknarflokkurinn, sem gengu hér berserksgang. (Gripið fram í.) Ég er að tala um árin 1965 og 1966, viðreisnarárin.

Ég gæti líka rifjað það upp, af því að hér hefur stundum verið um það talað með akademískum hætti af þeim sem eru hvort eð er á móti málinu, að þetta séu vondir vinnustaðir, skítugir vinnustaðir, karlavinnustaðir, vinnustaðir sem enginn vill vinna á. Ég horfi bara á veruleikann eins og hann er. Straumsvíkurálverið var vissulega skítugur vinnustaður á árum áður og frá því streymdi mengun. Þar hefur hins vegar orðið gjörbreyting á.

En hvort heldur er þá hefur á þeim rúmu fjórum áratugum eða á fimmta áratug sem liðinn er frá því að það álver var sett í gang tæplegast fyrirfundist annar vinnustaður þar sem trygglyndi starfsmanna við fyrirtækið hefur verið jafnmikið. Auðvitað hefur ekki alltaf verið kyrrt og fellt þar á bæ frekar en í öðrum fyrirtækjum landsins og þar hafa vissulega farið fram átök um kaup og kjör eins og vera ber og á að vera. En það breytir því ekki að þetta hefur verið eftirsóttur vinnustaður á alla lund, mjög eftirsóttur vinnustaður.

Ég spyr: Af hverju ættu mál að þróast á allt annan veg annars staðar á landinu? Hafa þau gert það uppi í Hvalfirði? Nei, þau hafa ekki gert það. Þar er nákvæmlega sama reynslan. Því staðreyndin er sú þegar menn skoða þessi mál ofan í kjölinn að í stórauknum mæli hefur konum fjölgað sem starfsmönnum álvera, enda vinnan yfirleitt þannig í langflestum tilfellum að hún fellur jafnt konum sem körlum. Í annan stað eru menntunarkröfur mjög mismunandi og ýmis sérhæfð störf orðin þar til í seinni tíð eftir því sem tækninni hefur fleygt fram í þeim iðnaði. Ég frábið mér því svona einfaldar meldingar í þá veru að stóriðja sé eitthvað skítugt og vont sem megi ekki líta við.

Það má enginn skilja orð mín svo að ég sé einhver einlægur aðdáandi stóriðju og hún sé upphaf alls þess sem koma skal. En, herra forseti, (Gripið fram í: Viðurkenndu það bara.) ég er raunsæisstjórnmálamaður og í þeim konfektkassa sem okkur býðst eru ekki endalausir molar. Við getum ekkert valið úr þeim kassa eins og okkur sýnist, það er ekki þetta val og við sjáum það auðvitað á langri vegferð.

Menn hafa staðið í þessum ræðustól fyrr og síðar og tengist það mjög náið þeim umræðum sem átt hafa sér stað um stóriðju, nefnilega áhrifum útlendinga á íslenskt atvinnulíf. Maður lifandi. Hér hafa menn staðið og talað sig hása svo tímunum skiptir um þá hættu sem íslensku þjóðarbúi stafaði af vondum útlendingum sem ætluðu að kaupa dalina, árnar okkar, ætluðu að leggja undir sig landið. Þá er ég að vísa til umræðunnar um EES-samninginn forðum daga. (Gripið fram í: Páll Pétursson?) Ja, ég er nú ekki síður að vísa til fyrrv. formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar, sem fór hér mikinn og hæstv. iðnrh. var í liði með á sínum tíma. (Iðnrh.: Í liði með?) Formanni sínum, hæstv. fyrrv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. hafi þá verið í Framsfl. eins og núna, mjög væntanlega.

Í þessu samhengi er einnig fróðlegt að rifja það upp, af því ég nefndi hvernig rauði og blái liturinn blönduðust stundum þegar kom að atvinnuuppbyggingu, að ein helsta mótbáran gegn stóriðju á Íslandi var frá últravinstrimönnum, þ.e. að útlendingar ættu meira en helminginn í slíkum fyrirtækjum. Það þótti ekki nægilega góð latína og menn lögðust eindregið gegn því. Ég held að tillaga hafi komið um það á sínum tíma frá vinstri mönnum að það væri klár og kvittur áskilnaður að Íslendingar ættu meira en helming í slíkum fyrirtækjum.

Nú er þetta ekkert sérstakt mál og mætti segja mér að þetta hafi frekar snúist við og að langflestir teldu það mjög æskilegt að áhrif útlendinga í íslensku atvinnulífu yrðu hóflega mikil m.a. til að tryggja eðlilega samkeppni. Ég hef a.m.k. ekki heyrt marga í þessum sal síðustu missiri og árin hafa af því sérstakar áhyggjur. Að minnsta kosti heyri ég það ekki í þessari umræðu að menn setji það sérstaklega fyrir sig að útlendingar hætti fjármunum sínum til að reisa álver á Íslandi. Það er fremur að meiri peninga þurfi frá þeim og það sé fremur það að hv. þingmenn á borð við Ögmund Jónasson sem hafi áhyggjur af því að íslenskir lífeyrissjóðir láti sér til hugar koma að festa peninga í framtíðarverkefnum af þessum toga.

Ég er honum algjörlega ósammála. Ég spyr hv. þm. hvort hann telji fjármunum lífeyrissjóðanna betur komið í áhættufjárfestingu erlendis. Ég spyr hann beint hvort hann telji fjármunum umbjóðenda sinna, Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, betur komið í áhættufjárfestingum erlendis heldur en að reisa hér verksmiðju sem muni mala um áratuga skeið og selja vörur til útlanda. Ég fæ ekki komið heim og saman slíkri forgangsröðun, en vafalaust getur hv. þm. útskýrt það fyrir mér með sínum bláu áherslum hvernig á því stendur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta. Afstaða mín hefur verið skýr í málinu allt frá upphafi. Ég ætla heldur ekki að segja frá því hvernig ég kynntist fyrst þessum viðfangsefnum austur á Reyðarfirði, á Austfjörðum, þegar varaþm. Vinstri grænna, Hjörleifur Guttormsson, var þá iðnrh., og ég var á 14 fundum með honum um alla Austfirði í alþingiskosningunum 1983, þar sem hann lofaði hástöfum aftur á bak og áfram kísilmálmvinnslu fyrir Austfirðinga. (Gripið fram í.) Það er mér minnisstætt, það voru mínar fyrstu alþingiskosningar og ég tók alveg sérstaklega eftir því hversu mikill ákafamaður Hjörleifur Guttormsson, enda þá iðnrh., var fyrir þær kosningar, raunar ekki eftir þær, hvernig hann lofaði Austfirðingum því að nú mundi rafmagn renna frá Eyjabökkum og til stóriðjumálmblendiverksmiðju í Reyðarfirði. Nú eru aðrir dagar og aðrir tímar og menn hafa skipt þar um skoðanir. Ég er ekki þeirrar tegundar í stjórnmálum að ég svíki loforð. Ég lofaði Austfirðingum þessu líka og ég ætla að standa við það þótt síðar verði. (Gripið fram í.) Og gæti ég komið þar eitthvað að verki, þó í litlu væri, mun ekki standa á mér. Því að orð eiga að standa í pólitík, herra forseti, það veit hann manna best og það vitum við báðir.