2002-04-04 00:04:08# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[24:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er enn þá ekki ljóst hvers vegna hæstv. ráðherra telur að málið sé ekki á byrjunarreit. Það er auðvitað ákaflega létt í hendi að ganga hér frá virkjunarleyfi án þess að nokkuð sé ljóst um hinn fasa málsins, þ.e. að setja þetta rafmagn á markað. Ég vil rifja upp, herra forseti, að því miður var fyrirliggjandi virkjunarleyfi í Fljótsdalsvirkjun um árabil, um langt árabil eins og margfrægt er orðið. Því miður tókst ekki að breyta því í markaðsvæna vöru. Því miður segi ég, herra forseti.

Því miður verð ég því að segja aftur að það segir mér ekki neitt um söluna á þessu rafmagni, um stóriðju, nýtt álver, að virkjunarleyfi sé í höfn. Ég tek það hins vegar fram að það er engin ástæða fyrir Alþingi Íslendinga að draga lappirnar í þeim efnum. Alþingi ber að ljúka því verkefni sem hafið var, hefur farið í gegnum lögbundinn feril og liggur hér fyrir til ákvörðunar, já eða nei. En því miður verður hæstv. ráðherra að upplýsa mig öllu betur um hvað við eigum inni gagnvart þeim sem hugsanlega hafa áhuga, mögulegum samstarfsaðilum við að reisa stóriðjuna sjálfa, verksmiðjuna sjálfa, álverið sjálft. Er eitthvað meira í pípunum þar, eitthvað meira á hendi þar en augað sér?