2002-04-04 02:17:11# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[26:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú líður senn að lokum 2. umr. um Kárahnjúkavirkjun. Hér í húsinu er hæstv. iðn.- og viðskrh. og formaður iðnn., hv. þm. Hjálmar Árnason. Ég vænti þess að þau verði áfram viðstödd umræðuna og einnig væri æskilegt að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson verði viðstaddur ræðu mína. Hann beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að svara.

Það sem ég ætla að fjalla um er sú áhætta sem ég tel fólgna í því fyrir Íslendinga að ráðast í þetta verkefni. Menn hafa staðhæft, þar á meðal hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að þessi fyrirhugaða framkvæmd yrði til að styrkja atvinnulíf á Íslandi og væri landsmönnum mjög til hagsbóta hvernig sem á málin væri litið.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson verði viðstaddur þessa umræðu. því hann beindi til mín spurningum. (Iðnrh.: Það er ekki hægt að gera kröfu um að þingmenn séu við.) Er ekki hægt að gera kröfu til þess að þingmenn verði viðstaddir umræðuna, segir hæstv. ráðherra. Að sjálfsögðu er hægt að ætlast til þess að þeir sem beina spurningum til þingmanna sem taka þátt í þessari umræðu fái við þeim svör.

(Forseti (HBl): Það er sjálfsagt að verða við því að hv. þm. verði látinn vita um að nærveru hans sé óskað.)

Hann kemur innan skamms er okkur tjáð. Ég mun gera hlé á ræðu minni þar til hann er kominn í salinn því ég ætla að beina orðum sérstaklega til hans. Hann beindi spurningum til mín og óskaði eftir svörum og hann mun fá þau svör. (Gripið fram í.) Ég ætlast til að allir þessir aðilar hlýði á mitt mál, svari þeim spurningum sem ég hyggst beina til þeirra.

Í salinn gengur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og ætlar að vera viðstaddur þessa umræðu. Hann beindi til mín ýmsum spurningum, þ.e. til mín og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hv. þm. slóst í hóp stjórnarsinna, einkum framsóknarmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni um Reyðarálsverkefnið, sem hafa staðhæft að þessi stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á vegum opinberra aðila yrði til að styrkja undirstöður atvinnulífs á Íslandi, yrði þjóðinni til hagsbóta og mundi færa okkur aukna velsæld. Ég tel svo ekki vera. Ég hef reynt að færa rök fyrir því.

Fyrir alla innlenda aðila sem kæmu að þessu máli væri veruleg áhætta á ferðinni. Hverjir eru þeir aðilar? Hverjir yrðu þeir innlendu fjárfestar sem hugsanlega kæmu að þessu máli? Það yrðu sennilega fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir. Í hverju er áhætta þeirra fólgin? Erfitt er að alhæfa um það og nefna einhverja eina skýringu en ég tel hættuna fyrst og fremst stafa af því að leggjast í faðm risastórs fjölþjóðlegs fyrirtækis á borð við Norsk Hydro. Dæmin sanna að slíkt faðmlag getur reynst hættulegt, að faðmlagið reynist þegar allt kemur til alls vera vinarklær.

Ég rakti sögu Íslenska járnblendifélagsins sem tók til starfa á Íslandi árið 1976. Þá höfðu Íslendingar meirihlutaeign í því fyrirtæki. Ég fór og aflaði mér nákvæmra gagna um sögu málsins. Þar kemur í ljós að í upphafi átti íslenska ríkið 55%, en Elkem Spigerverket kom að því með 45% eign. En Elkem er eitt af stærstu iðnfyrirtækjum Noregs og stærsti framleiðandi kísiljárns í heiminum. Árið 1984 breyttist eignarhald í félaginu. Þá var hlutafé aukið og japanska fyrirtækið Sumitomo Corporation kom inn í samstarfið. Sumitomo er ein af fimm stærstu fyrirtækjasamsteypum í Japan.

Frá 1984 og fram til 1997 var skipting eignarhalds í Íslenska járnblendifélaginu þannig að íslenska ríkið átti 55%, Elkem átti 30% og Sumitomo 15%. Árið 1997 náðust samningar milli hluthafa um meirihlutakaup Elkem í járnblendifélaginu og stækkun verksmiðjunnar. Í kjölfarið lagði Elkem aukið hlutafé til félagsins og eignaðist þar með meiri hluta. Þetta gerist árið 1997. Eignarhluti Elkem var 51% en íslenska ríkið átti 38,5% og Sumitomo 10,5% eftir breytinguna. Árið 1998 seldi íslenska ríkið 26,5% hlut í járnblendifélaginu á almennum markaði en hélt eftir 12% hlutafjárins. Þannig breytist eignarhaldið og Íslendingar komast þarna í minni hluta. Þetta gerist 1998.

Síðan bregður svo við í haust, í nóvembermánuði, að krafa kemur frá Norðmönnum um að færa hlutafé niður um 75%. Við munum eftir fréttum þar að lútandi. Þá var hlutaféð skráð í 1.763 millj. kr. Þá var það fært niður um 75%, um 440 millj. þá væntanlega. En skömmu síðar, í tengslum við þessa breytingu, var ákveðið að auka hlutaféð frá hendi Norðmanna um 600 milljónir og íslenska ríkið setti, ef ég fer rétt með, 50 milljónir inn í fyrirtækið til að halda því inni á Verðbréfaþingi og koma í veg fyrir að íslensku hluthafarnir verði af öllu sínu fé, vegna þess að féð var uppurið, uppbrunnið þegar það var fært niður. Þarna er þessi meirihlutaaðili kominn í aðstöðu til að stilla Íslendingum upp við vegg, en ekki bara á þessu sviði heldur einnig gagnvart orkunni. Allar götur, frá upphafi, var það svo að erlendu aðilarnir höfðu tögl og hagldir.

Ég minntist þess sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, talaði um sem blóðpeninga. Það var 3% umboðsgjald, umsýslugjald, sem þeir höfðu af umsýslunni. En eftir þessar breytingar mun Elkem Spigerverket eiga að því er ég best veit tæp 73%, 72,9%. Ég held ég fari þar rétt með. En það bregður svo undarlega við að á upplýsingasíðu Íslenska járnblendifélagsins segir ekki hver eignastaðan er núna. Eftir því sem ég kemst næst er eignarhlutur þeirra þessi eins og er. En íslensku fjárfestarnir, hvort sem það var ríkið eða þeir sem keyptu hlut á verðbréfamarkaði, sáu eign sína brenna upp. Þetta gæti hæglega gerst hjá lífeyrissjóðum eða öðrum aðilum sem komið gætu að þessum málum. Það er m.a. þess vegna sem menn tala um áhættu í þessu sambandi.

Þegar það gerist í ofanálag að við erum með orkuver sem hefur aðeins einn kaupanda, sem auk þess hefur tögl og hagldir, sér um aðföng, rekstur og hefur alla umsýsluna á sinni hendi, getur viðkomandi aðili, viðkomandi fjölþjóðafyrirtæki, auðveldlega stillt okkur upp við vegg, öðrum aðilanum. Þetta gerðist með Elkem á sínum tíma sem öðluðust þessa stöðu. Það er þetta sem menn hafa óttast að yrði hlutskipti íslenskra fjárfestingaraðila.

Ég minnist þess þegar íslensku samningamennirnir fóru að reisa sig og hafa áhyggjur af því að þeir mundu ekki kaupa þennan pakka, íslenskir lífeyrissjóðir og íslenskir fjárfestar, þegar Norsk Hydro gerði kröfu um að ráða á grundvelli minnihlutaeignar, minni hluta hlutafjár, jafnvel 15--20%, öllum gangi í fyrirtækinu. Þegar þetta var kynnt, þá birti Morgunblaðið ítarlega grein, það var 1. ágúst, undir fyrirsögninni Titringur hjá Norsk Hydro vegna krafna íslenskra fjárfesta. Í greininni kom fram að íslenskir fjárfestar væru ekki líklegir til að kaupa þennan pakka. Þó er það reyndar svo að þessum íslensku fjárfestum var aldrei gerð ítarleg grein fyrir stöðunni en þetta er rakið í þessari ágætu umfjöllun Morgunblaðsins, vandaðri umfjöllun Morgunblaðsins sem Björn Ingi Hrafnsson,, núverandi framkvæmdastjóri þingflokks Framsfl., skrifaði. Þar er mjög fróðleg og vönduð grein eins og ég segi.

[26:30]

Áhættan sem íslenskir fjárfestar kynnu að taka og þar með lífeyrissjóðir er raunveruleg. Áður en ég hverf alveg frá hlut lífeyrissjóðanna, því ég er í hópi þeirra sem hafa verið gagnrýndir fyrir íhaldssemi í þeim efnum og fyrir varnaðarorð gagnvart því að íslenskir lífeyrissjóðir kæmu að slíkum málum, þá vil ég í örfáum orðum skýra hver afstaða mín og skoðanabræðra minna er í þessu efni.

Ég er því fylgjandi að íslenskir lífeyrissjóðir taki þátt í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. En spurningin er hins vegar sú á hvern hátt þeir koma að slíkum fjárfestingum og það er lykilatriði.

Ég lagði til á sínum tíma að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í húsnæðiskerfinu, í húsnæðiskerfi landsmanna. Við þekkjum það frá Þýskalandi, Hollandi og víðar að lífeyrissjóðir eiga hlut í húsnæðisfyrirtækjum. Það má vel vera að sá tími renni upp að þeir geri það einnig hér á landi, en sá tími er ekki runninn upp. Þess vegna tel ég að hlutur lífeyrissjóðanna eigi að vera sá að þeir komi með fjármagn inn í húsnæðiskerfið, fjármagn sem hefði baktryggingu ríkisins, fjármagn sem ekki væri sett í neina áhættu en á skikkanlegum vöxtum, sem væri eðlilegt þegar baktrygging ríkisins kæmi einnig til, og það fjármagn yrði látið renna til húsnæðissamvinnufélaga, til sveitarfélaga og annarra aðila sem reistu húsnæði. Þegar slík fyrirtæki, stofnanir eða samvinnufélög væru búin að sanna tilveru sína, þá væri sú stund upp runnin að lífeyrissjóðirnir kynnu að koma að félaginu og fjárfestingunni á beinan hátt. Sú stund er hins vegar ekki upp runnin.

Á sama hátt mundu menn nálgast fjárfestingu af þessu tagi. Þótt ég sé andvígur álveri og virkjun á Austurlandi fer því fjarri að ég telji það óráðlegt um aldur og ævi að íslenskir lífeyrissjóðir komi að slíkum fjárfestingum þegar þær eru komnar á laggirnar. Ég hef mínar persónulegu skoðanir á þeirri framkvæmd og er ekki umhugað um að sjá neitt fjármagn renna til slíkra landspjalla. Það er mín persónulega skoðun. En hér er ég að lýsa þeirri afstöðu sem ýmsir aðilar innan lífeyrissjóðakerfisins hafa haft og þar á meðal ég og byggist fyrst og fremst á varfærni, að forðast áhættufjárfestingar. Og þá ætla ég að svara þeirri spurningu sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson beindi til mín varðandi áhættufjárfestingar lífeyrissjóða í útlöndum, hvort ég kjósi þær fremur. Nei. Ég vil forðast áhættufjárfestingar yfirleitt og reyna eftir fremsta megni að beina fjármagninu í örugga höfn hvort sem hún er innan lands eða utan. Því meira sem við sjáum gerast innan lands, því betra að sjálfsögðu. Þetta er afstaða mín gagnvart þessu.

Þá vil ég svara því hvar ég tel áhættu íslensku fjárfestanna liggja. Það er í því nána sambýli án þess að hafa völd í samræmi við fjárfestingar sínar og sú hætta sem þeir standa frammi fyrir varðandi fjárfestingar sínar.

Þá komum við að Landsvirkjun sem er í eigu ríkis og sveitarfélaganna Reykjavíkurborgar og Akureyrar. Hver er áhætta þeirra? Jú, eftir því sem ég kemst næst og ef við byggjum á þeim upplýsingum sem reiddar eru fram um kostnað við virkjunina, þá þyrftum við að fá 25--30 mill fyrir rafmagnið til þess að standa undir slíkri fjárfestingu. Okkur er hins vegar sagt að þetta sé þar fyrir neðan. Neitað er að upplýsa nákvæmlega hver upphæðin er en menn eru að geta sér til um að hún sé einhvers staðar á bilinu 15--20, hugsanlega 18, og miðist við álverð sem er 1.550 dollarar fyrir tonnið af áli. Tonnið er núna á heimsmarkaði rúmlega 1.400, 1.402 eða 1.403 eitthvað á því bili, en menn telja, bjartsýnismenn, að það muni fara hækkandi.

Aðrir hafa uppi varnaðarorð hvað þetta snertir og segja að kerfisbreytingar séu að verða í álframleiðslunni sem muni leiða til lækkaðs verðs og benda helst á, máli sínu til stuðnings, að framleiðslan sé að fara frá ríkjum þar sem raforkuverð er tiltölulega hátt til ríkja þar sem krafist er tiltölulega lágs verðs fyrir raforkuna. Menn nefna ýmis ríki í Afríku og Asíu í því sambandi, Mósambík, Suður-Afríku, Víetnam, Kína, Indónesíu o.s.frv. Menn benda einnig á að sú breyting sé að verða í álframleiðslunni að ríki sem áður fluttu inn ál eins og t.d. Kína verði innan þriggja til fimm ára orðin útflutningsríki á áli. Þetta allt muni stuðla að því að álverðið muni ekki hækka eins og bjartsýnismenn í þessum bransa spá.

Það mundi þýða að raforkuverðið yrði þá væntanlega undir jafnvel því lága verði sem menn eru gera því skóna að við mundum fá, sem er þó langt undir því sem ég tel og þeir sem ég hef grennslast fyrir um þessi mál hjá, að þurfi, þ.e. 25--30 mill. Þarna er ein áhætta en stóra áhættan er hins vegar sú, vegna þess að sérstaða þessarar framkvæmdar er sú að þetta er ein virkjun með einn kaupanda, að kaupandinn geti sett okkur stólinn fyrir dyrnar, að kaupandinn geti í ljósi óhagstæðrar þróunar á álverði t.d. stillt okkur upp við vegg og sagt: Álverðið hefur þróast á allt annan veg en fyrir var spáð og nú þurfum við að endursemja um raforkuverðið. Eða gera menn sér grein fyrir því að raforkan til járnblendiverksmiðjunnar, sem ég vék að hér áðan, er undir 10 mill? Það er langt undir framleiðsluverði og langt undir því verði sem við þyrftum að fá frá Kárahnjúkavirkjun. Þegar þessi stórfyrirtæki færu að stilla okkur upp gagnvart slíkum kaldhömruðu staðreyndum, þá yrði samningsstaða okkar engin.

Það sem í rauninni veldur mér kannski hvað mestum áhyggjum núna er hve íslensk stjórnvöld hafa veikt samningsstöðu okkar. Nú á að fara að gera út nýja sendinefnd og hún er áður en hún leggur upp í för orðin blóðrisa á hnjánum, því hún kemur bókstaflega á hnjánum til álrisa úti í heimi til að biðja þá um að koma hingað til að rísa undir væntingum Framsfl. á Austurlandi og pólitískum loforðum sem þar voru gefin. Því um það snýst þetta mál fyrst og fremst.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., hefur upplýst að út frá þjóðhagslegum forsendum Íslendinga væri æskilegast að tala um að fá hingað 120 þúsund tonna álver, ekki einu sinni 240 þúsund, hvað þá 420 þúsund eins og ráðgert er. En þegar hann fer að tala sína framsóknarpólitík, þá hefur hann komist, herra forseti, upp í 700 þúsund tonn. (Utanrrh.: Hvað segirðu?) Hann hefur komist upp í 700 þúsund tonn, vegna þess að þeir menn eru komnir á hnén gagnvart erlendum álfyrirtækjum. Og það er þetta sem hefur veikt samningsstöðu okkar stórlega.

Þetta er með öðrum orðum sú áhætta sem verið er að taka á vegum Landsvirkjunar og þar með þjóðarinnar allrar sem er í bakábyrgð fyrir það fyrirtæki. Ýmsir ungir hagfræðingar sem standa bæði til hægri og vinstri í stjórnmálum hafa varað við því að íslenska þjóðin fari í bakábyrgð fyrir slíka framkvæmd. Seðlabankinn hefur einnig varað við slíkri bakábyrgð. Þetta er staðreynd.

Þá er ég kominn að þriðja og síðasta atriðinu sem ég vildi víkja að um áhættuna. Hún lýtur að íslenskum þjóðarbúskap. Í efh.- og viðskn. þingsins var það rauður þráður hjá flestöllum, menn eru uppteknir af litrófinu í umræðunni, það var rauður þráður í orðum allflestra sem inn komu að þessi framkvæmd kynni að vera of stór fyrir íslenskt efnahagskerfi. Hins vegar voru menn á þeirri skoðun, og flestir sem komu frá stofnunum sem reknar eru á vegum ríkisstjórnarinnar, að hægt væri að grípa til mótvægisaðgerða til að hamla gegn þessu. Seðlabankinn talar um að hækka vexti, í upphafi framkvæmdatímans þurfi þeir að fara upp um 2,5%, sem er nú ekkert smáræði og hækkaði skuldaklyfjar landsmanna um milljarða. Talað er um að draga úr framkvæmdum á vegum hins opinbera og í atvinnulífinu almennt, það er ekki tíundað hvað það væri, hvort það væru sjúkrahús, skólar, vegir eða hvað það væri, en það ætti að draga úr framkvæmdum. Hægt væri að grípa til mógvægisaðgerða en allir sem vildu horfa á þessi mál af einhverju raunsæi vöktu máls á því að þetta væri mjög stór framkvæmd fyrir íslenskt efnahagskerfi. Ég held að það sé mergurinn málsins, kjarninn í þessu máli. Að með slíkri framkvæmd mundum við láta öll eggin í eina körfu. Allt of mörg egg. Og menn skulu ekki gera lítið úr því þegar talað er um nauðsyn þess að stuðla að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Þær tillögur sem við höfum sett fram lúta allar að því að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið að með framkvæmdunum mundi mælast vöxtur í efnahagslífinu, ekkert mjög mikill, en hann mundi mælast, ekki er talað um háar prósentur. Og talað er um að útflutningsverðmæti mundu aukast. Þetta er alveg rétt. Einfaldlega vegna þess að við borðum ekki álið og berum það ekki á túnin. Við flytjum það út og fáum fyrir það gjaldeyri. Það er staðreynd. En það sem efnahagssérfræðingarnir sem hafa verið að gagnrýna þessa framkvæmd hafa bent á er að tilkostnaðurinn við að afla gjaldeyris með þessum hætti og örva atvinnulífið og hagvöxtinn í landinu sé allt of mikill og ráðlegra sé að fara aðrar leiðir til að ná því markmiði. Þetta minnir hins vegar pínulítið á stalínstímann í Sovétríkjunum á sínum tíma þegar menn einblíndu á framkvæmdina án þess að hyggja að öðrum kostum og hver tilkostnaðurinn væri við að ná settum markmiðum með þessum leiðum.

[26:45]

Herra forseti. Að lokum langar mig til að vitna í fréttir Morgunblaðsins frá því í dag, þar sem m.a. er vitnað í norska blaðið Aftenposten. Nú leyfi ég mér að vitna, með leyfi forseta, í frétt undir fyrirsögninni Hafa ekki hætt við þátttöku. Þar er vísað í Norsk Hydro. Ég vitna í fréttina, með leyfi forseta:

,,Norsk Hydro hafi vegna kaupanna á þýska fyrirtækinu VAW þurft að endurskoða fjárfestingaráætlanir sínar, þegar hafi verið ákveðið að hætta við verkefni um báxítframleiðslu á Indlandi og Norsk Hydro vilji nú leggja meira af þekkingu en minna af beinhörðum peningum vegna mögulegra framkvæmda við álver á Reyðarfirði.``

Þetta er í ætt við það sem við kynntumst hjá járnblendifélaginu í samningunum við Elkem Spigerverket á sínum tíma. Þetta er nokkuð sem alltaf hefur verið áhugamál Norsk Hydro. Það hefur aldrei fengist staðfest af þeirra hálfu að þeir séu tilbúnir að setja allt að 50% í þessa framkvæmd en ég hef grun um að þeir vilji ná slíkri eignaraðild þegar fram líða stundir, meirihlutaeign á silfurfati og í kaupbæti lægra raforkuverð en þó er verið að semja um og er allt of lágt.

Annað sem mig langar til að vitna í úr Morgunblaðinu er að finna á baksíðu blaðsins þar sem segir frá fundi á Reyðarfirði á Austurlandi í gær. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Valgerður sagði að komi fram áhugaverðari kostur en Norsk Hydro muni samstarfi við það hætt. Valgerður sagði að áður en fréttir bárust af því að Norsk Hydro yrði að fresta ákvarðanatöku, hafi samningar verið í höfn við stórt og öflugt fyrirtæki sem hafi verið tilbúið að koma að verkefninu á móti Hydro sem eignaraðili upp á tugi prósenta. Í samtali við Morgunblaðið var Valgerður ekki tilbúin að gefa upp hvaða fyrirtæki væri um að ræða, en sagði að áfram yrði rætt við forráðamenn þess um aðild að verkefninu.``

Hverjir skyldu þetta nú vera? Fróðlegt væri að vita hvenær Alþingi verður treyst fyrir þessum upplýsingum og þeim nefndum sem eiga að fjalla um þessi mál. Síðar í þessari frétt Morgunblaðsins segir einnig, með leyfi forseta:

,,Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls, sagðist telja að Norsk Hydro hefði lagt milli 400 og 500 milljónir króna í Noral-verkefnið sem sýndi að Norðmönnum væri full alvara með því.``

Hann taldi að þeim væri full alvara með þessu máli vegna þess að þeir hefðu lagt í það 400--500 milljónir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að þeim stærðum áðan og sagði réttilega að stórfyrirtæki á borð við Norsk Hydro setti slíka peninga í athuganir og kannanir víðs vegar um heiminn. Gera menn sér grein fyrir því hve hátt hlutfall þetta er af veltu Norsk Hydro? Velta Norsk Hydro er um 2.000 milljarðar króna. Þetta mundi samsvara, ef við heimfærðum þetta á veltu Landsvirkjunar, því að Landsvirkjun setti 3 milljónir í kannanir af þessu tagi. Þetta á að sýna fram á hvílík alvara hafi búið þarna að baki.

Hver var alvara Union Carbite sem gerði skaðleysissamning í tengslum við járnblendiverkefnið fyrir aldarfjórðungi? Greiddu þeir ekki í tengslum við skaðleysissamninginn 8 millj. dollara? Voru það ekki 800 millj. þá? Þetta eru smáaurar á þann mælikvarða. Ef við ætlum hins vegar að fara að tala um einhverja peninga sem máli skipta skulum við skoða ábyrgðarleysið sem Landsvirkjun, sem starfar á vegum stjórnvalda og á ábyrgð þeirra, hefur sýnt með fjárfestingum sínum í tengslum við þessar æfingar fyrir austan.

Að lokum vil ég vitna áfram í þessa grein af þessum fundi. Ég var að vitna í það sem haft er eftir Geir A. Gunnlaugssyni og ég ætla að halda áfram þeirri tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Hann sagðist telja að mikið af þeirri vinnu sem lokið væri gæti nýst í samningaviðræðum við aðra aðila, þó hugsanlega yrði að taka einhvern hluta samninganna upp að nýju og jafnvel vinna að hluta nýtt mat á umhverfisáhrifum með nýjum forsendum þar sem samþykkt mat miðaði við tækni sem Hydro hefur í boði. Geir sagðist telja að í fyrsta lagi í lok ársins 2003 geti menn átt von á jákvæðri ákvörðun.``

Er nú ekki kominn tími til, herra forseti, að hyggja að öðrum ráðum fyrir Austfirðinga og Íslendinga alla en þessum ráðagerðum íslensku ríkisstjórnarinnar um að fjárfesta í skýjunum?