Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:32:18 (6987)

2002-04-05 11:32:18# 127. lþ. 111.3 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv. 25/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessu frv. er ætlað að heimila íslenskum félögum sem uppfylla tiltekin skilyrði að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli. Miðað er við að þau félög og fyrirtæki sem fá þessa heimild notfæri sér hana í a.m.k. fimm ár nema þau hætti á einhverjum tíma að uppfylla skilyrðin fyrir notkun hennar. Þetta fyrirkomulag er lagt til svo að jafnvægi náist og skammtímahagsmunir ráði ekki ferðinni við samningu ársreiknings hverju sinni. Í frv. er einnig gert ráð fyrir breytingum á skattalögum til að tryggja að skattstofn þeirra félaga sem nýta sér heimildina verði áfram í íslenskum krónum.

Það sem við höfðum að leiðarljósi í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þegar við ræddum þessi mál var tvennt. Í fyrsta lagi teljum við mikilvægt að skapa íslenskum fyrirtækjum sem best rekstrarumhverfi og reyna að tryggja í lögum að hagsmunir þeirra séu sem best tryggðir. Þar hefur verið bent á að það sé hagræði af því fyrir fyrirtæki sem hafi umfangsmikla starfsemi á erlendri grundu að geta haft þann hátt á sem lagt er til í frv.

Á hinn bóginn teljum við að sjálfsögðu mjög mikilvægt að farið sé að vilja og ráðleggingum íslenskra skattyfirvalda þannig að ríkissjóður verði ekki hlunnfarinn í neinu. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. eru mjög í þessa veru. Við teljum, þegar á heildina er litið, að þetta frv. sé atvinnufyrirtækjum til hagsbóta og þess vegna veitum við því stuðning.

Sá misskilningur hefur stundum verið uppi að til þess að greiða götu atvinnulífs á Íslandi sé bara ein lausn fyrir hendi, þ.e. að ganga í Evrópusambandið. Margir telja að það sé fyrst og fremst til þess fallið að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs. Við teljum það af og frá. Við höfum bent á að innganga í Evrópusambandið grafi undan fullveldi þjóðarinnar á ýmsum sviðum en á hinn bóginn er greinilegt að við getum, bæði gagnvart Evrópusambandinu og öðrum aðilum, gripið til ráðstafana eins og þetta frv. hér er dæmi um, sem stefna að þessu sama markmiði án þess að við þurfum að burðast með heilt bírókratí frá Evrópu á bakinu.