Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:39:07 (7015)

2002-04-05 14:39:07# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þessi umræða er búin að vera skringileg.

Verið er að auka réttindi fólks sem er af útlendu bergi brotið með þessu frv. Ríkisborgurum utan Norðurlanda er fenginn kosningarréttur eftir fimm ára búsetu í landinu. Það er svo einfalt mál. Áður þurftu þeir a.m.k. að hafa verið sjö ár í landinu til að öðlast ríkisborgararétt. Þetta er munurinn. Verið er að taka á móti útlendingum og gefa þeim færi á að hafa áhrif í sveitarstjórnarkosningum, bæði með kosningarrétti og svo kjörgengi þegar þeir eru búnir að dvelja hér, með lögheimili, í fimm ár.

Þriggja ára búseta Norðurlandabúa er óbreytt ástand frá því sem verið hefur. Ekki er hreyft við þeim réttindum sem þeir höfðu, þeir voru búnir að fá þessi réttindi. En það er verið að rýmka rétt fyrir aðra en Norðurlandabúa.

Ég ítreka að hér er um stjfrv. að ræða. Það er borið fram af mér sem félmrh. en það þarf stuðning, ekki bara framsóknarmanna heldur sjálfstæðismanna líka. Hv. þm. Halldór Blöndal túlkaði ágætlega ráðandi sjónarmið sjálfstæðismanna í þessum umræðum. Þess vegna er þetta frv. eins og það er. Sjálfstfl. getur fellt sig við frv. í þeirri mynd sem það er nú. Sjálfstfl. ályktaði á landsfundi sínum gegn rafrænum kosningum. Þess vegna fór ég ekki á flot með slíkar kosningar í þessu frv.

Ég gengst ekki fyrir löggjöf í samstarfi við stjórnarandstöðu en í andstöðu við samstarfsflokkinn. Svo einfalt er það. Á meðan við framsóknarmenn erum í samstarfi við Sjálfstfl. vænti ég þess að við höldum þeirri reglu. (Gripið fram í: Verður það lengi enn?) Það getur orðið töluvert lengi enn.