Virðisaukaskattur og tryggingagjald

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:59:01 (7019)

2002-04-05 14:59:01# 127. lþ. 112.4 fundur 580. mál: #A virðisaukaskattur og tryggingagjald# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv. 34/2002, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Frsm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem flutt er af efh.- og viðskn. Frv. er í tveimur köflum og þremur greinum. Málið snýst um að breyta þarf lögum um virðisaukaskatt og lögum um tryggingagjald til samræmis við nýsamþykkt frv. um breytingu á lögum um bókhald og ársreikninga. Málið snýst í grundvallaratriðum um að alveg sé klárt að þegar fyrirtæki færir bókhald í erlendum gjaldmiðlum myndist skattkröfurnar vegna tryggingagjalds og virðisaukaskatts áfram í íslenskum krónum, og öll uppgjör sem snerta uppgjör á tryggingagjaldi og virðisaukaskatti séu í íslenskum krónum þrátt fyrir að bókhaldið sé fært í erlendum gjaldmiðlum. Þetta er ástæðan fyrir þessu frv. Það er ekki hægt að flytja það sem brtt. við það frv. sem var hér áður til umfjöllunar vegna þess að þetta snýr að öðrum lögum en þar er verið að breyta. Því er þetta flutt sem svokallaður skröltormur við það frv.

Herra forseti. Ég legg ekki til að málið fari til nefndar heldur beint til 2. umr.